Við áramót

Um síðustu áramót hafði ég á orði í sambærilegri grein að ég vonaðist til að við sæjum fram á bjartari og betri tíma hvað COVID-19 faraldurinn varðar. Ekki varð mér að þeirri ósk minni og einkenndist árið að mörgu leyti af sóttvörnum og takmörkunum af ýmsu tagi sem höfðu mikil áhrif á samskipti og framgang mála. Kosningar til Alþingis í haust báru þessa merki, þar sem almenn kosningabarátta varð að fara fram með allt öðru sniði en venja er. Spurningin er hvort það sama muni verða uppi á teningnum næsta vor en nú fer kosningabaráttan fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor að hefjast.

Þrátt fyrir þá annmarka sem COVID-19 hefur sett samfélaginu hefur lífið á Akureyri gengið að mörgu leyti vel. Hér varð samdráttur mun minni í ferðaþjónustunni en víða annars staðar og má þar þakka því að Íslendingar á faraldsfæti fylltu að nokkru það skarð sem erlendir ferðamenn skildu eftir. Tekjufall bæjarsjóðs varð því ekki eins og búist var við og atvinnutekjur hafa dregist minna saman en ætlað var. Má þar þakka að einhverju leyti aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Það má því þrátt fyrir allt horfa björtum augum til næstu framtíðar ef fer sem horfir. Í Akureyrarbæ hefur íbúum fjölgað um rúmlega 350 sem er mun meira en undanfarin ár. Samhliða því hefur verið mikill gangur í byggingaiðnaðinum og miklu meiri en gert var ráð fyrir. Viðbygging við flugstöðina mun rísa á næsta ári ásamt stækkun flughlaðsins. Tvær nýjar heilsugæslustöðvar eru á teikniborðinu og munu framkvæmdir hefjast við þær á næsta ári ef allt gengur eftir. Er það von manna að bætt starfsaðstaða muni t.d. laða að fleiri lækna.

Ný leguálma við SAk er í hönnunarferli og mun bætt aðstaða styrkja stöðu sjúkrahússins til framtíðar. Fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða er í farvatninu með viðbyggingu við Lögmannshlíð. Hólasandslína 3 kemst í gagnið á næsta ári ef allt gengur eftir og mun það auka og styrkja raforkuflutning til Akureyrar. Háskólinn hefur verið að eflast mjög með fjölgun nemenda og auknum fjárveitingum en í tengslum við starfsemi hans eru einnig ýmis áform uppi um fjölgun verkefna og starfa.

Til viðbótar þessum verkefnum hefur verið nokkur vöxtur í verslun og þjónustu með tilkomu fleiri verslana og annarri atvinnustarfsemi sem kallar á fleiri störf. Allt eru þetta framfaramál sem barist hefur verið fyrir á undanförnum árum og má því með nokkru sanni segja að nú verði ákveðin vatnaskil í pólitísku starfi hér um slóðir og ný verkefni taka við.

Ég hef hér rakið nokkur mikilvæg mál sem skipta okkur Akureyringa miklu og snúa að ríkinu eða ríkisfyrirtækjum og þeim fylgir fjármagn sem kemur að en er ekki úr hirslum Akureyrarbæjar. Ég ætla því næst að drepa á því helsta sem snýr að starfsemi Akureyrarbæjar.

Stjórnsýslubreytingar

Um áramótin taka gildi töluverðar breytingar á stjórnsýslu Akureyrarbæjar. Gerðar eru breytingar á sviðum og verkefni færð til innan kerfis og ráðum og nefndum er fækkað. Þannig eru samfélagssvið og Akureyrarstofa lögð niður og færast íþrótta- og æskulýðsmálin undir nýtt fræðslu- og lýðheilsusvið en menningar- og atvinnumálin undir þjónustu- og skipulagssvið.

Skipulagsmálin falla eins og nafnið gefur til kynna einnig undir þjónustu- og skipulagssvið og lögð áhersla á að skipulagsmál snúast um þjónustu við bæjarbúa. Samhliða eru gerðar verulegar breytingar á skipan ráða og nefnda. Stjórn Akureyrarstofu og frístundaráð eru lagðar niður og færast mál þeirra annars vegar til bæjarráðs og hins vegar til fræðslu- og lýðheilsuráðs. Þá er kjarasamninganefnd lögð af og færast málefni hennar til bæjarráðs.

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðum til að gengið yrði lengra í fækkun sviða en gert var og auka þannig hagræðinguna frekar en verður. Það náðist ekki fram.

Með þessum breytingum er verið að fækka stjórnendum í kerfinu og einnig fulltrúum í nefndum og ráðum. Af þessu leiðir að kostnaður vegna yfirstjórnar lækkar og þá eykst samlegð í rekstri með tilfærslu málaflokka undir eina stjórn sem falla faglega og rekstrarlega vel saman. 

Samhliða þessum breytingum er lögð áhersla á aukna rafræna stjórnsýslu og að færa stjórnsýsluna saman á einn stað. Til þess þarf að byggja við núverandi stjórnsýsluhús og breyta innra skipulagi til þess að fækka fermetrum á hvern starfsmann og auka samlegð. Gert er ráð fyrir því að lækka kostnað við þennan hluta kerfisins um 100 milljónir króna á ári með þessari breytingu einni.

Skipulagsmálin

Mikill gangur hefur verið í skipulagsmálunum undir formennsku Þórhalls Jónssonar og mörg verkefni komin í ferli eða í undirbúningi. Umræða hefur verið um það um nokkurt skeið að á Akureyri væri lóðaskortur yfirvofandi þar sem uppbygging Hagahverfisins hefur verið mun hraðari en gert var ráð fyrir. Því hefur verið lögð áhersla á að hraða eins og kostur er skipulagi á Holtahverfinu og Kollugerðishaganum.

Nú liggur fyrir samþykkt skipulag fyrir Holtahverfið og hefjast þar gatnaframkvæmdir strax og snjóa leysir á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir því að skipulag fyrir Kollugerðishagann eða Móana verði klárað á næsta ári og verða þá tilbúin svæði fyrir allt að 1.400 íbúðir.

Á árinu var síðustu lóðunum í Austurbrú úthlutað. Það vakti sérstaka athygli bæjarfulltrúa hve vönduð vinna fór fram í hönnunarferlinu, þar sem mikið var lagt upp úr tengingu við umhverfið og sögu bæjarins.

Umdeildustu mál bæjarstjórnar voru án efa skipulagstillaga á Oddeyrinni annars vegar og í Tónatröð hins vegar. Tillagan á Oddeyrinni endaði í skoðanakönnun meðal íbúa og kom þar fram mikil andstaða við tillöguna hjá þeim sem þátt tóku. Var því einboðið að mínu áliti að leggja þá tillögu af. Sú tillaga að uppbyggingu í Tónatröðinni sem kom fyrst fram fór því miður í dreifingu, en það stóð aldrei til að taka afstöðu til hennar eins og hún kom fram.

Verktakinn fékk tækifæri til að leggja fram nýjar hugmyndir og komu þær fram á haustmánuðum. Þar komu fram mjög spennandi hugmyndir sem falla vel að umhverfinu. Það liggur þó fyrir að það á eftir að gera ýmsar athuganir s.s. á stöðugleika jarðlaga og umferðarmálum áður en tekin er endanleg afstaða til byggingarmagns og hugmyndarinnar í heild á þessum stað.

Eitt af stóru verkefnunum sem sameinuð bæjarstjórn ætlaði sér að ljúka var breytt deiliskipulag miðbæjarins. Það hefur nú verið samþykkt og bíður staðfestingar skipulagsyfirvalda. Það var því ánægjulegt að framkvæmdir í Hofsbót 2 hefjast að öllu óbreyttu snemma á næsta ári.

Að lokum vil ég nefna undir þessum lið að gatnagerðargjöld hafa verið hækkuð t.d. á fjölbýli en þau voru langt undir því sem gerðist á Suðvestur horni landsins. Þá er í auknum mæli verið að bjóða lóðir til sölu og mun það ásamt hækkun gatnagerðargjalda auka tekjur bæjarsjóðs til muna ef vel gengur. Stóru sveitarfélögin hafa tekið inn verulegar tekjur af sölu lóða á liðnum árum og þannig bætt rekstrarlega stöðu sína verulega.

Íþróttamálin

Mikið hefur verið rætt og ritað um málefni íþrótta á Akureyri á árinu og hefur mikið farið fyrir gagnrýni á bæjarstjórn fyrir metnaðarleysi í málaflokknum. Eva Hrund Einarsdóttir hefur staðið í brúnni sem formaður frístundaráðs og hefur hún lagt mikla orku í viðræður við hin ýmsu félög til að ná sátt og finna leiðir til að mæta þeim kröfum sem fram hafa komið. 

Nú liggur fyrir samkomulag við KA um uppbyggingu á svæði þeirra og mun bærinn leggja til 830 milljónir á næstu árum. Í þessu sambandi er rétt að benda á að stefnt er að sölu byggingalóða á hluta Akureyrarvallar sem mun standa undir þessum kostnaði og vel það. Þá verður farið í lagfæringu á aðstöðu fyrir SA í Skautahöllinni og nýlokið er við að byggja nýtt aðstöðuhús fyrir Siglingaklúbbinn Nökkva. Þessar framkvæmdir eru í samræmi við samþykkta forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri. Til viðbótar þessu hafa verið í gangi viðræður við Þór um aðkomu bæjarins að lagfæringum á félagssvæði þeirra sem mun vonandi ljúka snemma á næsta ári.

Í ljósi mikillar gagnrýni á bæjaryfirvöld og meintan óhagstæðan samanburð Akureyrar við sambærileg sveitarfélög á Suðvestur horninu er rétt að benda á hver rekstrarkostnaður var á íbúa í nokkrum sveitarfélögum árið 2020.



Eins sést á þessari mynd var rekstrarkostnaður til æskulýðs- og íþróttamála langt yfir meðaltali samanburðarsveitarfélaganna árið 2020. Þannig hefur þetta verið lengi og er enn. Það skal svo tekið fram að 70% af þessum kostnaði á Akureyri er tilkominn vegna mannvirkja. Munurinn liggur að stórum hluta í því að fyrir sunnan reka sveitarfélögin skíðasvæði saman og þar er ekki fimleikahús eða skautahöll í hverju sveitarfélagi, þannig að samlegðin er mikil.

Öldrunarmál

Ríkið tók rekstur öldrunarheimilanna yfir á árinu og samdi RÍKIÐ við einkaaðila um reksturinn. RÍKIÐ samdi einnig um að rekstraraðilinn þurfi ekki að greiða leigu af húsnæðinu þrátt fyrir að Akureyrarbær sé skráður eigandi þess. Þetta er óviðunandi staða fyrir bæinn og hefur því verið sett fram krafa af hálfu bæjarráðs um að ríkið kaupi hlut Akureyrarbæjar. 

Það hafa borist fréttir af því að reksturinn gangi vel hjá núverandi rekstraraðila og sé ánægja hjá starfsfólki með nýjar áherslur.

Gengið er út frá því í fjárhagsáætlun að byrjað verði á viðbyggingu við Lögmannshlíð á næsta ári sem mun rúma 60 einstaklinga. Akureyrarbær gerir ráð fyrir því að leggja 380 milljónir til uppbyggingarinnar á næstu þremur árum sem er 15% af kostnaði við hana. Að mati bæjarstjórnar er það tímaskekkja að sveitarfélög séu skylduð til að leggja til þessi 15% til verkefnis sem er að fullu á ábyrgð ríkisins.

Fræðslu- og uppeldismál

Áfram verður unnið að því að innleiða nýja menntastefnu í starfsemi skólanna með dyggum stuðningi við starfsfólk skólanna, sem hefur staðið sig með eindæmum vel í erfiðum aðstæðum sem skapast hafa vegna COVID-19.

Það er mikið verk fyrir höndum við að sameina starfsemi fræðslu- og uppeldismála og æskulýðs- og íþróttamála. Það verkefni mun Eva Hrund Einarsdóttir leiða sem formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs. Með aukinni samlegð í þessum málaflokkum felast mikil og mörg tækifæri sem forvitnilegt verður að fylgjast með hvernig tekst til að nýta.

Þessi málaflokkur tekur til sín ríflega helming af öllum skatttekjum bæjarins eða ríflega 11,4 milljarða og er því um viðamikla starfsemi að ræða og um leið afar mikilvæga. Það er því mikilvægt að vel takist til.

Á næsta ári er gert ráð fyrir því að lokið verði við endurbyggingu Lundarskóla, haldið verði áfram með endurnýjun á húsnæði Glerárskóla, skólalóð Oddeyrarskóla verði endurnýjuð og til viðbótar verður farið í nokkur smærri verkefni. Áætlaðar eru 850 milljónir til þessara verkefna.

Fjárhagur bæjarins - rekstur

Meginástæða þess að til varð sameinuð bæjarstjórn var erfið staða bæjarsjóðs og yfirvofandi rekstrarvandi í kjölfar COVID-19 faraldursins. Sem betur fer hefur faraldurinn haft mjög takmörkuð áhrif til hins verra í rekstrinum. Þar hafa aðrir þættir ráðið meiru. Í vinnu við fjárhagsáætlun 2021 og 2022 hefur verið lögð áhersla á að draga úr hallarekstri A - hlutans með auknum tekjum og aðhaldi en þó þannig að það komi sem minnst fram í lakari þjónustu við íbúa, sérstaklega börn og þá sem minna mega sín. Þetta hefur verið krefjandi vinna og ekki síst á kosningaári þegar þrýstingur á aukin útgjöld vex að öllu jöfnu.



Eins og sést á myndinni hér að ofan er gert ráð fyrir verulegum halla á rekstri beggja hluta bæjarsjóðs á næsta ári. Það er alveg ljóst að við gerðum okkur vonir um betri niðurstöðu á næsta ári í upphafi þessa árs. Það hafa hins vegar verið gerir samningar sem leiða til meiri hækkunar launa-kostnaðar en gert var ráð fyrir og þá hefur bættur vinnutími eða stytting vinnuvikunnar veruleg áhrif, sérstaklega þar sem um vaktavinnu er að ræða. Er ekki úr vegi að áætla að kostnaðaraukning vegna þessa nemi um og yfir 700 miljónum króna og veldur þar málaflokkur fatlaðra mestu.

Það hefur komið víða fram í fréttum á síðustu vikum að sveitarfélögin standa mjög höllum fæti í rekstri málaflokks fatlaðra og fer hallinn vaxandi. Sveitarfélögin tóku málaflokk fatlaðra yfir árið 2011 og áttu að vera tryggðar tekjur á móti til að standa undir kostnaði. Síðan þá hefur þjónustuþörfin aukist mikið, kröfur ríkisins með lagasetningu valdið auknum kostnaði ásamt bættum vinnutíma starfsfólks. Þessum aukna kostnaði hefur ekki verið mætt með breyttri tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og því hallar verulega á. Þessi halli hefur aukist mjög mikið síðast liðin þrjú ár og stefnir í að verða vel yfir 600 milljónir á næsta ári, sem skýrir stærstan hluta af halla bæjarsjóðs. Hér verður að nefna að samkvæmt úttekt Haraldar Líndals á rekstri málaflokksins á Akureyri er reksturinn í mun betra horfi hér en víðast annarsstaðar á landinu. 

Í skýrslu sem kom út á árinu var lagt til að Akureyrarbær fengi skilgreint hlutverk sem „svæðisborg“. Það er ekki að ástæðulausu sem slík tillaga kemur fram. Þegar staða Akureyrarbæjar er borin saman við sambærileg eða stærri sveitarfélög hér á landi kemur í ljós að útgjöld og þjónusta Akureyrarbæjar líkist miklu meira útgjalda- og þjónustumynstri Reykjavíkurborgar. Þetta má glögglega sjá á meðfylgjandi mynd. Þar sést að kostnaður vegna félagsþjónustu og menningarmála er umtalsvert hærri á hvern íbúa í Akureyrarbæ og Reykjavíkurborg en hinum sveitarfélögunum. Þá er kostnaður á íbúa vegna æskulýðs- og íþróttamála mestur í Akureyrarbæ. 



Svona er þetta þar sem fólk sækir á þá staði þar sem þjónustu er að fá og á það sérstaklega við um margskonar sérþjónustu. Sem dæmi má taka að á árinu voru samþykktir viðaukar að upphæð 40 milljónir vegna barna með sérþarfir í leikskólum sem fluttu í bæinn. Þetta sýnir einnig styrk þjónustunnar í bænum sem er til fyrirmyndar að flestu leyti.

Þegar horft er til framlaga til menningarmála þá er rétt að geta þess að menningarsamningar við ríkið voru hækkaðir lítillega á síðasta ári og lagði ríkið fram rúmar 200 milljónir til verkefnisins á ári næstu árin. Ef jafnræðis væri hins vegar gætt með hliðsjón af framlagi ríkisins til menningarmála á höfuðborgarsvæðinu ætti framlagið að vera að lágmarki 400 milljónir. Þar er verkefni að vinna.

Ég vil benda á það að okkur hefur orðið heilmikið ágengt í því að rétta stöðu bæjarsjóðs af þrátt fyrir allt en við ráðum illa við utanaðkomandi aðstæður sem kollvarpa metnaðarfullum áætlunum.

Samningar við nágrannasveitarfélögin

Fyrir liggur að endurskoða samninga við nágrannasveitarfélög Akureyrarbæjar um ýmiskonar þjónustu. Öll eru sveitarfélögin að auglýsa lóðir og íbúum fjölgar sem er hið besta mál. Það hallar hins vegar að mörgu leyti á Akureyrarbæ í ýmsum sameiginlegum málum á svæðinu. 

Sem dæmi má nefna að þegar samningur var gerður um málefni fatlaðra 2011, samþykkti Akureyrarbær að sjá alfarið um reksturinn og taka á sig allan halla eða afgang af rekstrinum. Hin sveitarfélögin lögðu hins vegar inn til Akureyrarbæjar þær tekjur sem þau hafa af málaflokknum. Þetta hefur leitt til þess að sá halli sem hefur orðið á málaflokknum á undanförnum árum hefur allur lent á Akureyrarbæ og er áætlað að um sé að ræða hátt í milljarð á síðustu 3 – 4 árum. Ef sveitarfélögin skiptu þessu á milli sín í hlutfalli við íbúafjölda ætti Akureyrarbær að bera 90% og hin 10% eða 100 milljónir.

Annað sem ekki er alveg eðlilegt er að sveitarfélögin í nágrenni Akureyrarbæjar taki ekki þátt í þeim kostnaði sem kemur til við uppbyggingu öldrunarheimila. Þetta sömdu sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum um þegar ákveðið var að fjölga rýmum fyrir aldraða á Húsavík. Miðað við áætluð framlög Akureyrarbæjar vegna stækkunar við Lögmannshlíð ættu nágrannar okkar að bera 38 milljón króna kostnað eða 10%.

Það er því að ýmsu að hyggja í samstarfi sveitarfélaganna á þessu svæði, þar sem íbúum fjölgar í þeim öllum og flestir vinna á Akureyri og sækja þangað flesta þjónustu.

Að lokum

Ég hef hér farið yfir málefni Akureyrarbæjar í allmörgum orðum og komið víða við. Ég er hér að skrifa þennan pistil í síðasta sinn sem oddviti Sjálfstæðisflokksins hér í bæ. Ég hef fyrr allnokkru tilkynnt að ég muni ekki leitast eftir því að endurnýja umboð mitt og það hefur Eva Hrund Einarsdóttir einnig gert. Það má því reikna með að það verði mikil endurnýjun á lista flokksins í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí 2022.

Það hefur reyndar komið mér á óvart að ekki séu komnir fram einstaklingar sem sækjast eftir efstu sætum listans. Það er kannski bjartsýni hjá mér að ætla að fólk bíði í röðum eftir því að taka þetta hlutverk að sér. Það er nefnilega ekki alveg einfalt því hér er um að ræða hlutastarf sem varla verður sinnt með góðu móti með öðru starfi og þá þarf fjölskyldan einnig að vera með og tilbúin að taka því sem að höndum ber.

Starf bæjarfulltrúans er í senn erilsamt en ánægjulegt að lang mestu leyti. Það hefur verið ákaflega ánægjulegt að kynnast öllu því góða fólki sem ég hef mætt í starfinu og má segja það sé að mörgu leyti það sem stendur upp úr.

Ég vil því nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim sem ég hef unnið með á vettvangi bæjarmálanna og í flokknum fyrir gott samstarf og kynni síðastliðin átta ár. Megi árið 2022 verða ykkur öllum gæfuríkt og gjöfult.

Gunnar Gíslason
bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook