Við áramót 2016-2017

Þegar kemur að áramótum vakna minningar um árið sem er að líða og væntingar til komandi árs. Þá veltir maður því fyrir sér hvað gert var til góðs á liðnu ári og hvað má gera betur á því næsta. Margt gott hefur áunnist á Akureyri á liðnu ári og má þar nefna nokkur atriði.

 

Samþykktar hafa verið fjórar stefnur um ólík málefni þ.e. endurskoðuð jafnréttisstefna, mannauðsstefna, umhverfis- og samgöngustefna og ferðamálastefna. Slík stefnumörkun er mikilvæg til þess að skapa ramma um starfsemi bæjarins sem sveitarstjórnarfulltrúum og starfsfólki sveitarfélagsins er ætlað að virða í daglegri starfsemi og ákvarðanatöku. Tvær þessara stefna eru nýjar þ.e. umhverfis- og samgöngustefnan sem leysir af hólmi staðardagskrá 21 og ferðamálastefnan sem er alveg ný af nálinni og er nauðsynleg til að styðja við þá uppbyggingu sem nauðsynleg er á Akureyri til að mæta auknum fjölda ferðamanna í bæinn. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins tóku virkan þátt í þessari vinnu og komu mörgum mikilvægum þáttum fram.

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa á síðustu árum kallað eftir markvissari vinnubrögðum við gerð fjárhags- og starfsáætlunar Akureyrarbæjar. Kallað hefur verið eftir gögnum sem eru skýr og upplýsandi fyrir bæjarfulltrúa sem og íbúa við vinnu þessara áætlana. Það er algjört grundvallaratriði að það liggi fyrir á hverjum tíma fyrir hvað fjárhæðirnar í fjárhagsáætluninni standa, í hvað á að nýta fjármagnið. Á þessu varð mikil breyting til batnaðar á því ári sem nú er að líða. Reiknað er með að sú vinna verði þróuð enn frekar á næsta ári. Þá er einnig ætlunin að opna bókhald bæjarins svo íbúar geti sjálfir fylgst með því hvernig fjármunum er varið og hverjir fá greitt fyrir hvað.

 

Fyrri hluta þessa árs starfaði aðgerðahópur bæjarráðs að því að leita leiða til að snúa rekstri bæjarsjóðs til betri vegar. Ég sat fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins í þeim hópi. Til aðstoðar við þá vinnu var ráðinn utanaðkomandi ráðgjafi frá KPMG. Niðurstaða þeirra vinnu lá fyrir í maí. Þar komu fram margar tillögur um lækkun rekstrarkostnaðar sem voru fyrst og fremst byggðar á tillögum stjórnenda í deildum bæjarins. Auk þessa voru settar fram fjölmargar tillögur um frekari vinnu til þess að móta skýrari framtíðarsýn um vinnubrögð við gerð fjárhagsáætlana hveru sinni. Að mínu mati voru þær tillögur það bitastæða í þeirri vinnu sem þessi hópur skilaði af sér. Aðalatriðið er að jöfnuður náist í rekstri A hluta bæjarsjóðs, sem verður klárlega ekki á því ári sem er að líða.

 

Rekstur bæjarsjóðs lítur betur út á næsta ári, en það er ljóst að vinna þarf áfram að því að ná betri tökum á honum. Til þess þarf að móta stefnu til lengri tíma þar sem þjónustan er skilgreind í hverjum málaflokki fyrir sig. Til þess að ná sátt um slíka stefnumörkun þarf að boða til íbúafunda um málefni og forgangsraða. Á sínum tíma voru unnin drög að stefnu til 10 ára sem hafa legið í lokaðri skúffu s.l. þrjú ár. Það er tímabært að taka þau drög fram og vinna áfram. Þannig má marka sýn og ramma sem unnið verður eftir með markvissum hætti næstu árin.

 

Samstarfið í bæjarstjórn hefur farið batnandi seinni hluta liðins árs. Bæjarstjórn hefur náð saman um mörg mikilvæg mál, en þó ekki um forgangsröðun framkvæmda á næstu árum. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum bent á að raunverulegt samstarf á sér stað þegar málin eru rædd saman frá upphafi til enda. Það er ekki von til þess að samstarf leiði til sameiginlegrar niðurstöðu ef annar aðilinn er búinn að taka ákvörðun um hvernig hún á að vera fyrirfram.

Þetta kom t.d. skýrt fram í umræðum um framkvæmdir við Listasafnið sem áætlað er að kosti 400 milljónir næstu tvö árin, þó það liggi fyrir að heildarkostnaður verði ekki undir 500 milljónum og hugsanlega hærri. Frá þessari ákvörðun var meirihlutanum ekki hnikað, þó það hafi komið fram í umræðum að hlutverk Ketilhússins sé ekki ráðið enn og því furðulegt að það sé lögð slík áhersla á að byggja tveggja hæða tengibyggingu milli þess og Listasafnsins. Því ber þó að fagna að til stendur að byggja varanlegt húsnæði yfir siglingaklúbbinn Nökkva og nýtt húsnæði fyrir íbúa sambýlisins í Jörfabyggð. Þá komst á dagskrá endurnýjun á deildum á Öldrunarheimilinu Hlíð sem er orðið nauðsynlegt að fara í fyrr en seinna.

 

Til þess að samfélag vaxi og dafni þarf það að byggja á fjölbreyttu og öflugu atvinnulífi. Það er því eitt af mikilvægustu verkefnu sveitarstjórna að leggja grunn að tækifærum til þess að svo geti verið. Nú á haustmánuðum hefur sjónum verið beint að því að búast megi við því skorti á rafmagni og það fyrr en nokkurn óraði. Ástæðan er ekki sú að ekki sé framleitt nægjanlegt rafmagn á Íslandi. Ástæðan er sú að það þarf að leggja öflugri línur hvort sem er í lofti eða jörð, þar sem það á við. Það er því afar brýnt verkefni hjá bæjarstjórn að vinna að því á næsta ári að stuðla að því eins og kostur er í samvinnu við Landsnet og sveitarfélög á Norðurlandi, að Hólasandslína 3 verði samþykkt svo vinna við lagningu hennar geti hafist sem fyrst. Þá er ekki síður mikilvægt að vinna geti hafist sem fyrst við Blöndulínu 3, en það er grundvallaratriði til framtíðar að hún verði einnig lögð. Þá fyrst getum við íbúar á Eyjafjarðarsvæðinu andað léttar, hvað þetta varðar.

 

Atvinnulíf á Akureyri er fjölbreytt og byggir á sterkum stoðum. Hér stendur verslun og þjónusta traustum fótum ásamt ýmsum iðnaði og ekki síst sjávarútvegi. Þá er opinber þjónusta hér mikil s.s. framhaldsskólar og háskóli ásamt Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það er stöðugt verkefni að fylgjast náið með horfum í þessum geirum og veita stuðning þegar þörf krefur. Það hefur t.d. komið fram að nauðsynlegt er að byggja nýja legudeild við SAk um leið og farið verður í framkvæmdir við nýjan Landspítala. Mikilvægt er einnig að tengja betur saman starfsemi SAk og HA með það að markmiði að hefja hér læknanám með áherslu á deifbýlislækningar. Það myndi styrkja HA og auka breidd í námsframboði.

 

Ferðaþjónustan hefur verið í stöðugum vexti undanfarin ár og verið kjölfestan í hagvexti þjóðarinnar síðustu ár. Þessa vaxtar hefur ekki gætt sem skyldi hér norðan heiða fram að þessu en nú virðist vera breyting á því. Það er því mikilvægt að innviðir hér geti tekið við auknum fjölda ferðamanna næstu árin. Þar þarf að huga að afþreyingarmöguleikum sem hafa aðdráttarafl. Þar má nefna Demantshringinn sem byggir á því að Dettifossvegur verði kláraður, beint millilandaflug til og frá Akureyri og Egilsstöðum, Kjalvegur verði byggður upp, ný stólalyfta uppfyrir Strýtu verði reist og þá þarf að ljúka við gerð flughlaðsins við Akureyrarflugvöll svo eitthvað sé nefnt. Allt eru þetta ásamt mörgum þáttum enn sem verða að vera til staðar ef auka á tekjur samfélagsins hér af ferðaþjónustunni.

 

Eitt er það mál sem bæjarstjórn hefur á síðasta ári látið sig miklu varða. Það er staða og framtíð Reykjavíkurflugvallar. Það verður aldrei samþykkt að málefni Reykjavíkurflugvallar séu einkamál Reykvíkinga og þeir einir hafi skipulagsvald til að ráðstafa því landi sem hann stendur á með hliðsjón af hagsmunum Reykvíkinga einna. Reykjavík er höfuðborg landsins og hefur skyldur sem slík. Þar er eina hátæknisjúkrahúsið staðsett og nær öll stjórnsýsla landsins og það í 101 Reykjavík. Það skiptir því máli og er lífsspursmál eins og fram hefur komið síðustu daga ársins að flugvöllurinn verði óskertur þar til og ef ný og betri lausn finnst. Það verður því að finna leið til að opna á ný svokallað Neyðarbraut. Á þetta verkefni verður bæjarstjórn Akureyrar að leggja mikla áherslu á næsta árið og lengur ef þörf krefur. Þá þarf að ná samstöðu meðal landsbyggðarsveitarfélaganna í því að beita sér að alefli til varnar flugvellinum í Vatnsmýrinni.

 

Staða Akureyrarbæjar er að mörgu leyti sterk sem sveitarfélags en sveitarfélögin í Eyjafirði og Akureyrarbær væru í enn sterkari stöðu sem eitt sveitarfélag. Það ber því að leggja áherslu á að skoða markvisst og málefnalega hvort ekki sé grundvöllur til að sameina sveitarfélögin. Það hefur bæjarstjórn samþykkt og mikilvægt er að bjóða til viðræðna sem fyrst.

 

Skipulagsmálin eru mjög áberandi í allri umræðu hér í bæ. Nú er verið að reisa byggð á Drottningarbrautarreitnum í samræmi við skipulag sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili. Sitt sýnist hverjum um þá framkvæmd en óskandi er að þessi byggð verði til prýði þegar framkvæmdum lýkur. Þessar framkvæmdir hafa ýtt undir umræðuna um bílastæðamál í Miðbænum. Þeim hefur fækkað verulega tímabundið en mun fækka enn frekar þegar framkvæmdir hefjast á Hofsbótarreitnum. Það er því mikilvægt að huga vel að því hvort ekki sé ástæða til að reisa bílastæðahús á svæðinu. Tillaga sjálfstæðismanna um undirbúning vegna slíkrar byggingar var samþykkt í vor og verður fróðlegt að sjá hvað mun koma út úr þeirri undirbúningsvinnu.

 

Í ljósi þessa verður einnig að hafa í huga að samkvæmt gildandi Miðbæjarskipulagi er ætlunin að þrengja Glerárgötuna frá mótum Kaupangsstrætis að Grænugötu. Þá er einnig ætlunin að færa hana nær Hofi á kafla. Þetta eru framkvæmdir sem munu eftir því sem fram hefur komið kosta um hálfan milljarð króna. Það er að mati okkar sjálfstæðismanna mikilvægt að breyta gildandi skipulagi svo hætt verði við þessar fyrirætlanir.

 

Starfsemi leik- og grunnskóla stendur traustum fótum og er mönnun og aðbúnaður þar góður, þó alltaf megi gera betur. Starfsemi skólanna gengur almennt vel, en árangur á sumum sviðum mætti bæta enn frekar. Nú fækkar leikskólabörnum töluvert þar sem fæðingarárgangar hafa verið og eru nú fámennari en var fyrir nokkrum árum. Þessi þróun hefur haft það í för með sér að það hefur verið mögulegt að fækka aðeins rýmum og því hefur verið ákveðið að loka tveimur leikskólum. Í þessu ljósi hefur umræðan um að koma börnum fyrr en við átján mánaða aldur inn í leikskóla farið af stað hjá foreldrum. Það hefur einnig komið fram í þessari umræðu að það þurfi að mæta þeim börnum sem komast ekki inn fyrr en rúmlega tveggja ára eins og er nú í mörgum tilvikum. Þessi umræða kallar á að stefnumörkun í þessum málum verði tekin til endurskoðunar á næsta ári.

 

Kjaradeilur kennara settu mark sitt á seinni hluta ársins sem nú líður. Grunnskólakennarar samþykktu samning í lok árs til eins árs og nú bíður mikil vinna í kjölfar þess samnings við að greina starfsaðstæður þeirra og álag í starfi, sem þarf að vera lokið fyrir haustið 2017. Þá hafa tónlistarskólakennarar í FT verið samningslausir í rúmt ár. Það er algjörlega óásættanleg staða fyrir alla. Það verður því að vera forgangsverkefni samningsaðila á nýju ári að landa samningi. Það hefur vakið furðu margra hvað sveitarstjórnarfulltrúar eru lítið inni í gangi viðræðna í kjaradeilum sem sveitarfélögin eiga í við starfsfólk sitt á hverjum tíma. Ástæðan er sú að sveitarfélögin hafa framselt vald sitt í kjaraviðræðum til Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fer því með umboðið. Þetta var gert m.a. að kröfu stéttarfélaga s.s. Kennarasambands Íslands á sínum tíma. Í ljósi þess hve stirðlega samningaviðræður ganga nú hefur sú umræða komið upp meðal sveitarstjórna hvort ekki væri rétt að endurskoða þetta fyrirkomulag að einhverju leyti.

 

Hér hef ég farið yfir það sem helsta sem situr eftir þegar árið 2016 rennur sitt skeið og helstu verkefni sem bíða ársins 2017 í bæjarmálum Akureyrarbæjar. Af þessari yfirferð má ljóst vera að margt hefur verið gert og fjölmargt á eftir að gera. Vonandi tekst okkur að vinna málefnalega og af virðingu áfram þannig að hagsmunir Akureyringa allra verði hafðir að leiðarljósi við ákvarðanatöku á næsta ári.

 

Um leið og ég óska Akureyringum öllum gleðlegs nýs árs með þökk fyrir það liðna, vil ég þakka sjálfstæðisfólki á Akureyri fyrir afar góð og gefandi samskipti á árinu sem er að líða, sérstaklega í aðdraganda kosninga til Alþingis í október síðast liðnum.

Að lokum óska ég Njáli Trausta Friðbertssyni til hamingju með kjörið til Alþingis og þakka honum gott og gefandi samstarf í bæjarstjórn Akureyrarbæjar, sem ég vona að færist nú á annað stig sem verði bæjarbúum öllum til heilla.

 

Kveðjur bestar!


Gunnar Gíslason

oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Akureyrarbæjar.

 

 

 


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook