Valgerður Gunnarsdóttir sextug

Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, er sextug í dag.

Valgerður fæddist á Dalvík 17. júlí 1955 og ólst þar upp. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1975 og lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands í íslenskum fræðum og bókmenntum. Valgerður lauk prófi í kennslu- og uppeldisfræðum í Háskólanum á Akureyri og hefur auk þess lokið diplómu í stjórnun og hefur að baki fjölbreytt starfstengd námskeið.


Valgerður fluttist til Húsavíkur árið 1982. Þar var hún ritari sýslumanns 1982-1983, bókari hjá Lífeyrissjóðnum Björgu 1983-1986 og gjaldkeri við Alþýðubankann á Húsavík 1986-1987. Valgerður hóf kennslu við Framhaldsskólann á Húsavík árið 1987 og kenndi þar til ársins 1999.

Valgerður sat í bæjarstjórn Húsavíkur 1986-1998 fyrir Kvennalista og var forseti bæjarstjórnar 1994-1996. Valgerður sat í skólanefnd Framhaldsskólans á Húsavík 1987-1999, í stjórn Listaverkasjóðs Húsavíkur 1990-1994, menningarmálanefnd Húsavíkur 1994-1998, fræðslu- og menningarmálanefnd Húsavíkur 1998-1999 og stjórn Útgerðarfélagsins Höfða 1986-1990.

Valgerður var skólameistari Framhaldsskólans á Laugum 1999-2013 og hefur búið á Laugum frá 1999. Valgerður sat í stjórn Skólameistarafélags Íslands 2000-2013 og var formaður Skólameistarafélagsins 2009-2013 og auk þess formaður Samstarfsnefndar framhaldsskóla á Norðurlandi 2006-2013.

Valgerður hefur setið á Alþingi frá vorinu 2013. Hún er 3. varaforseti Alþingis og situr í fjárlaganefnd og Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Valgerður er varamaður í utanríkismálanefnd, allsherjar- og menntamálanefnd og Íslandsdeild alþjóðaþingmannasambandsins.

Eiginmaður Valgerðar er Örlygur Hnefill Jónsson, héraðsdómslögmaður, og eiga þau þrjú börn; Emilíu Ástu, Örlyg Hnefil og Gunnar Hnefil, og fimm barnabörn.

Sjálfstæðismenn á Akureyri óska Valgerði innilega til hamingju með stórafmælið.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook