Tökum öll þátt

Fyrr í dag fjallaði Ríkisútvarpið um umkvörtunarefni Félags eldri borgara á Akureyri sem bænum barst fyrr í vikunni. Í erindinu er þess krafist að gjaldskrárbreytingar Hlíðarfjalls verði endurskoðaðar. Félagið gerir athugasemdir, fyrir hönd félagsmanna sinna, við það sem þeir kjósa að kalla óeðlilegar hækkanir á gjaldskrá. Erindi þeirra var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í gær og komist var að þeirri niðurstöðu að ekki væri talin ástæða til að endurskoða gjaldskrá Hlíðarfjalls.

Það blasir við að rekstur skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli hefur gengið erfiðlega og halli hefur verið á rekstrinum. Það má jafnframt vera hverjum manni ljóst að rekstur sveitarfélagsins verður erfiður á næstu misserum í ljósi stöðunnar sem uppi er í þjóðfélaginu. Þess ber auðvitað líka að geta að rekstur skíðasvæða er langt því frá lögbundið hlutverk sveitarfélaga og þar af leiðandi er það morgunljóst að sveitarfélaginu ber engin skylda til að greiða með slíkri starfsemi. Aðgerðirnar sem gripið er til með hækkun gjaldskrár í Hlíðarfjalli eru því að mínu mati hvorki ósanngjarnar né óeðlilegar.

Vetraríþróttaparadísin í Hlíðarfjalli er segull inn á svæðið fyrir vetrarferðamennsku til Akureyrar og þess vegna hefur aldrei verið mikilvægara en nú að standa vörð um og styrkja rekstrargrundvöll skíðasvæðisins – Jöfnum leikinn og tökum öll þátt í að styrkja stoðir glæsilegustu vetraríþróttamiðstöðvar Íslands!


Þórhallur Jónsson
bæjarfulltrúi og formaður skipulagsráðs Akureyrarbæjar


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook