Stjórnmálaályktun Varðar, f.u.s. á Akureyri

Stjórnmálaályktun aðalfundar Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri
4. september 2014


Vörður fagnar góðum árangri Sjálfstæðisflokksins á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Þrátt fyrir niðurstöður kosninganna hefur tekið við völdum hræðslubandalag vinstri aflanna á Akureyri. Þetta leynibandalag var myndað löngu fyrir kosningar í þeim tilgangi einum að útiloka Sjálfstæðisflokkinn, sem reyndist sigurvegari kosninganna og langstærsti flokkurinn. Það er ljóst að stefnumál Sjálfstæðisflokksins í skipulagsmálum og andstaða flokksins við þrengingu Glerárgötu hittu í mark hjá kjósendum og raunar hlutu þau hljómgrunn langt út fyrir raðir sjálfstæðismanna.

Forsendubrestur fyrir skuldaniðurfellingu

Nú þegar ljóst er að alger forsendubrestur hefur orðið fyrir skuldaniðurfellingum ríkisstjórnarinnar í ljósi hækkandi fasteignaverðs og lágrar verðbólgu, sést vel að ríkisstjórnarsamstarf við Framsóknarflokkinn er dýru verði keypt. Vörður harmar að þessi aðgerð sé framkvæmd á vakt Sjálfstæðisflokksins.

Skattabreytingar ganga of hægt

Á sama tíma og stórfelldar millifærslur frá ríkissjóði til skuldara hafa verið ákveðnar þá hafa skattar lítið sem ekkert lækkað. Vörður hvetur ráðherra Sjálfstæðisflokksins til að einfalda skattkerfið, fækka undanþágum frá virðisaukaskatti og jafna aðstöðumun atvinnugreina. Vörður telur að leggja eigi áherslu á að lækka tekjuskatt, fjármagnstekjuskatt og erfðafjárskatt. Vörður fagnar fyrirhugaðri niðurfellingu auðlegðarskatts vinstri stjórnarinnar. Vörður telur að  leggja eigi áherslu á að neysluskattar standi undir tekjuöflun ríkissjóðs í auknum mæli. Þannig hafnar Vörður lækkun virðisaukaskatts. Auk þess telur Vörður enga þörf á að lækka tryggingagjald á fyrirtæki á sama tíma og atvinnulífið hefur efni á að snarhækka laun stjórnenda.

Minnka þarf ríkisafskipti

Leggja þarf meiri kraft í að vinda ofan af ákvörðunum vinstri stjórnarinnar og innleiða frelsi sem víðast. Vörður hvetur þingflokk Sjálfstæðisflokksins til að beita sér fyrir afnámi kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, endurskoðun opinberra framlaga til listamanna, að rýmka lög um áfengisverslun og áfengisauglýsingar, afnámi gjaldeyrishafta og lækkun tolla og vörugjalda. Að lokum hvetur Vörður þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins eindregið til að beita sér fyrir endurnýjun á yfirstjórn Seðlabanka Íslands og lögum um hann.

 


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook