Sigurður Hannesson látinn

Sigurður Hannesson, fyrrum bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, er látinn, 92 ára að aldri. Jarðarför hans fer fram frá Akureyrarkirkju á morgun, föstudaginn 26. ágúst, kl. 13:30.

Sigurður Hannesson fæddist í Hvammkoti í Skefilsstaðahreppi í Skagafjarðarsýslu 8. desember 1923 og ólst upp þar og í Hvammi í sama hreppi. Foreldrar Sigurðar voru Hannes Benediktsson og Sigríður Björnsdóttir.

Sigurður fluttist til Akureyrar árið 1943. Sigurður lauk prófi frá Iðnskólanum á Akureyri 1947, sveinsprófi í múraraiðn 1948 og fékk meistararéttíndi í múraraiðn 1951. Sigurður starfaði við iðn sína í hartnær hálfa öld og var mjög farsæll í sínu fagi.

Sigurður var varabæjarfulltrúi á árunum 1962-1974. Á árunum 1974-1982 var Sigurður bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og átti sæti í mörgum nefndum á vegum flokksins í bæjarmálum, t.d. í byggingarnefnd Akureyrarbæjar um langt skeið (var formaður hennar er flokkurinn var kominn í meirihluta kjörtímabilið 1986-1990 eftir að Sigurður hafði hætt í bæjarstjórn), í stjórn Dvalarheimilanna, í framkvæmdanefnd leiguíbúða og átti sæti í bæjarráði um nokkuð skeið. Um árabil var Sigurður í stjórn verkamannabústaða og lengi formaður, auk þess í stjórn Múrarafélags Akureyrar, Byggingameistarafélags Akureyrar og Karlakórs Akureyrar.


Sigurður náði ekki endurkjöri í prófkjöri flokksins fyrir kosningarnar 1982 og tók 8. sætið á framboðslista þá, sætið sem hann hlaut í prófkjörinu, og tók áfram virkan þátt í flokksstarfi og var t.d. formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra um nokkuð skeið að lokinni setu í bæjarstjórn. Auk þess sat Sigurður í stjórn fulltrúaráðs og í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins um skeið. Sigurður skipaði 14. sæti á framboðslista í bæjarstjórnarkosningunum 1990 og heiðurssæti í bæjarstjórnarkosningum 1998, þegar Sjálfstæðisflokkurinn vann einn af sínum stærstu sigrum á Akureyri, undir slagorðinu Kraftur í stað kyrrstöðu í forystu Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem varð bæjarstjóri að kosningum loknum.

Sigurður kvæntist Soffíu Georgsdóttur þann 26. maí 1950. Soffía er fædd 6. október 1930 og dóttir hjónanna Georgs Charles Karlssonar og Svanhildar Bergþóru Guðmundsdóttur. Sigurður og Soffía eignuðust fjórar dætur; Svanhildi, Helgu Sigríði, Valgerði og Guðrúnu Ingu.


Sjálfstæðismenn á Akureyri minnast Sigurðar Hannessonar með hlýhug og þakka fyrir störf hans í þágu Sjálfstæðisflokksins. Eftirlifandi eiginkonu hans og fjölskyldu allri færum við innilegar samúðarkveðjur á kveðjustundu. Blessuð sé minning mæts félaga.


Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook