Pælingar um atvinnulíf á Akureyri

Það er ekki ofsögum sagt að öflugt atvinnulíf er undirstaða öflugs samfélags. Þar sem atvinnulíf hefur látið undan, þar hefur samfélagið einnig látið undan og fækkun íbúa í kjölfarið og jafnvel svo að þéttbýlisstaðir sem áður fyrr stóðu styrkum fótum hafa lagst algjörlega í eyði eða svo gott sem. Það hlýtur því að vera eitt af hlutverkum sveitarstjórnarfólks í hverju samfélagi að fylgjast vel með þróun atvinnulífsins á hverjum tíma og bregðast við með þeim leiðum sem þeim eru færar til að styrkja og efla það.

Það er hins vegar ekki alveg einfalt verkefni eins og ég hef oft rekist á. Það er hvergi að finna á einum stað gott yfirlit yfir þróun eða stöðu atvinnulífsins á hverjum stað, eða svæði fyrir sig. Það má þó finna ýmsar upplýsingar á mismunandi stöðum en þær eru ekki alltaf sambærilegar eða byggðar upp af sama grunni. Þetta er mjög bagalegt og í raun ætti sveitarfélag eins og Akureyrarbær að koma sér upp öflugu mælaborði þar sem hægt væri að fylgjast vel með stöðu og þróun atvinnulífsins.



Íbúaþróun

Einn mælikvarði á stöðu atvinnulífsins er íbúaþróun, því það virðist fylgjast nokkuð vel að öflugt atvinnulíf og fjölgun íbúa. Það er því ekki úr vegi að líta aðeins til þess hvernig þróun á íbúafjölda hefur verið síðast liðin 20 ár eða svo. Tölurnar sem hér eru settar fram eru fengnar hjá Byggðastofnun úr stöðugreiningu 2019-2020 á Norðurlandi eystra.

Þegar breyting á íbúafjölda er skoðuð frá 1998 til 2019 má sjá að á Norðurlandi eystra öllu fjölgar íbúum á svæðinu öllu um 2028 en um 3497 á sama tíma á Akureyri. Það blasir einnig við að það hefur orðið veruleg fækkun í flestum hinna sveitarfélaganna.



Hins vegar lítur myndin aðeins öðruvísi út þegar skoðað er tímabilið2013 – 2019. Þá fjölgar íbúum á svæðinu öllu um 1419 en á Akureyri um 959. Þá sjáum við einnig að íbúum fjölgar verulega í Svalbarðsstrandarhreppi, Skútustaðahreppi og Norðurþingi. Í Svalbarðsstrandarhreppi er unnið að Vaðlaheiðargöngum, í Skútustaðahreppi er ferðaþjónusta á mikilli siglingu og í Norðurþingi er verið að reisa stóriðju á Bakka. Atvinnutækifærin hafa því afgerandi áhrif á íbúaþróun.

En það þarf að huga að ýmsum öðrum þáttum þegar horft er til samfélagslegrar þróunar og þar skiptir íbúasamsetningin miklu máli. Frá árinu 1998 hefur íbúum 50 ára og eldri á Norðurlandi eystra fjölgað mikið, sérstaklega í aldursflokkunum 50-59 og 60-69 ára. Einnig hefur orðið fjölgun á ungu fólki á aldrinum 20-29 ára. Fólki undir tvítugu hefur fækkað verulega og sömuleiðis fólki á aldrinum 30-39 ára. Fæðingartíðni á Norðurlandi eystra hefur frá árinu 1998 farið niður um þriðjung úr ríflega 450 fæddum börnum á ári niður í ríflega 300 fædd börn á ári. Dánartíðni hefur hækkað úr um 190 dauðsföllum sem var meðaltal áranna 1998-2002 upp í 225 síðustu fimm ár. Þetta leiðir til að mjög hefur dregið úr náttúrulegri fjölgun á svæðinu.

Þessi þróun mun leiða til fjölgunar starfa í þjónustu við aldraða þar sem þeim fjölgar mikið á næstu árum og að sumra áliti svo mörg störf að þeim verður varla mætt nema með aukinni tæknivæðingu. Á hinni hliðinni er börnum og unglingum að fækka, samkvæmt þessari greiningu. Fækkun fæðinga á hverju ári á Akureyri er staðreynd . Að nokkrum árum liðnum mun þessi þróun sennilega leiða til þess að störfum í skólum mun fækka og það mun hafa áhrif á öll skólastig á endanum.

Útsvarið er aðaltekjustofn sveitarfélaga og er lagt á atvinnutekjur íbúa, er að jafnaði yfir 50% af öllum tekjum. Það skiptir því miklu máli fyrir rekstur og þjónustu sveitarfélaga að útsvarstekjurnar séu það miklar að þær geti staðið undir bróðurparti þjónustunnar. Það verður ekki svo ef íbúum sem hafa atvinnutekjur fjölgar ekki svo tekjur vaxi þannig að standa megi undir aukinni þjónustu. Það er höfuðverkur sveitarstjórnarstigsins.

Atvinnulíf á Akureyri – staða og þróun

Atvinnulífið samanstendur í meginatriðum af opinberum störfum þ.e. störfum á vegum opinberra aðila s.s. ríki og sveitarfélögum og hins vegar af störfum á almennum vinnumarkaði.

Það hefur lengi verið lögð áhersla á að ríkið dreifi störfum í meira mæli um landið og nú síðustu mánuði hefur að margra áliti verið sýnt fram á að það er minna mál en margur hefur haldið fram með aukinni notkun á fjarfundabúnaði í COVID – inu. En hvernig er þessu háttað hér á Akureyri?

Oft er talað um Akureyri sem skólabæ, menningarmiðstöð og hér er einnig stórt sjúkrahús og háskóli að auki. Einu sinni var Akureyri mikill iðnaðarbær og útgerðarbær, en er það svo enn? Til þess að fylgjast með þróun atvinnulífsins er mikilvægt að hafa aðgang að góðum gögnum eins og fram hefur komið. Það má með góðum vilja setja fram ýmsar upplýsingar ef vel er að gáð og þeirra leitað á réttum stöðum.

Þegar skoðuð er skýrsla um staðsetningu starfa á vegum ríkisins sem Byggðastofnun gaf út nú nýverið, gögn úr ársreikningum Akureyrarbæjar og frá Vinnumálastofnun má gera sér nokkra grein fyrir þróun á vinnuafli, fjölda opinberra starfa og starfa á almennum vinnumarkaði. Þessi gögn gefa þó aðeins vísbendingu um þróun starfa á almennum vinnumarkaði.



Þegar upplýsingar um fjölda íbúa á Akureyri sem eru á aldrinum 16 – 69 ára eru rýndar, sést að hann hefur breyst frekar lítið undanfarin 6 ár, er í kringum 12.000 íbúa. Það sama á við um áætlað vinnuafl sem er að jafnaði um 10.000. Munurinn liggur að mestu í ungu fólki sem er í skóla og fjölda öryrkja. Hlutfall vinnuafls hefur farið vaxandi undanfarin ár eða úr 79% í 85%. Þessar tölur gefa okkur þá vísbendingu um það hve margir eru á vinnumarkaði á hverju ári á Akureyri.

Þegar fjöldi stöðugilda hjá hinu opinbera á Akureyri og Norðurlandi eystra er rýndur stöðugildum hjá ríkinu hefur fjölgað nokkuð á síðustu árum eða um 167 á Akureyri sem er með langflest stöðugildi á vegum ríkisins á Norðurlandi eystra. Þá hefur stöðugildum hjá Akureyrarbæ einnig fjölgað nokkuð eða um 43 í samstæðunni þ.e. A og B hluta síðan 2013. Stöðugildum í opinberum störfum hefur því fjölgað um 210 á Akureyri frá 2013.

Þegar horft er til stöðugilda hjá hinu opinber þarf að hafa í huga að á bak við þau eru fleira starfsfólk því það er ákveðin fjöldi starfsfólks í hlutastarfi. Hér er gert ráð fyrir því að í hverjum 100 opinberum stöðugildum séu 116 starfsmenn.



Ef reynt er að skilgreina þannig fjölda starfsfólks í opinberum störfum í Akureyrarbæ eru nú 3.655 opinberir starfsmenn á móti 6.750 starfsmönnum á almennum vinnumarkaði eða 35% og hefur það hlutfall breyst lítið undanfarin ár.

Hlutfall ríkisstarfa á Akureyri af heildinni hefur einnig breyst lítið undanfarin ár og er 6,2% á móti 63% í Reykjavík sem hefur heldur ekki breyst undanfarin ár þrátt fyrir nokkra fjölgun stöðugilda. Það hallar hins vegar nokkuð á landsbyggðina þegar reiknað er hlutfall stöðugilda af íbúafjölda. Það réttlætir kröfu bæjarstjórnar Akureyrarbæjar um fleiri störf án staðsetningar á vegum ríkisins.



En hvernig skiptast þá störf á almennum vinnumarkaði á milli atvinnugreina? Ekki er hægt að finna einfalda leið til að sjá það en þó má finna upplýsingar hjá Byggðastofnun um atvinnutekjur eftir atvinnugreinum og landshlutum 2008 – 2018. Því miður liggja ekki fyrir upplýsingar fyrir árið 2019. Gögnin innihalda staðgreiðslutekjur einstaklinga, þ.e. laun og reiknað endurgjald, hér eftir nefndar atvinnutekjur.

Þetta eru ekki heildartekjur einstaklinga þar sem upplýsingarnar innihalda ekki greiðslur eins og bætur almannatrygginga, greiðslur úr lífeyrissjóðum og aðra liði sem ekki teljast vera atvinnutekjur. Gögnin innihalda því heldur ekki hagnað af rekstri einyrkja sem eru með rekstur á eigin kennitölu. Tekjur einstaklinga fylgja lögheimili einstaklinga en ekki lögheimili eða staðsetningu launagreiðanda. Segja má því að um sé að ræða atvinnutekjur íbúa ákveðins sveitarfélags eða svæðis. 

Þegar þessar upplýsingar eru rýndar kemur í ljós að heilbrigðis- og félagsþjónusta ásamt fræðslumálum eru fyrirferðamiklar atvinnugreinar á Akureyri ásamt iðnaði, mannvirkjagerð og fiskveiðum. Umfang atvinnugreinanna eins og það birtist hér segir okkur nokkuð um umfang stöðugilda/starfa í hverri grein þó það sé ekki óyggjandi þar sem miklu getur munað á launum einstaklinga eftir atvinnugreinum. Hér er þó um sterka vísbendingu að ræða.



Það má einnig greina ákveðna þróun atvinnugreina þegar skoðaðar eru breytingar á atvinnutekjum milli áranna 2008 og 2018.

Hér má t.d. sjá að hlutur ferðaþjónustu vex umfram margt annað en hlutur fiskveiða minnkar en fiskvinnslu eykst. Leiða má líkum að því að þetta sé að gerast m.a. með aukinni landsvinnslu sem byggist að einhverju leyti ef ekki miklu leyti á aukinni sjálfvirkni-væðingu. Þetta má einnig sjá á þessari mynd sem einnig er að finna í gögnum Byggðastofnunar.



En hvert leiða þessar pælingar? Það má ljóst vera að atvinnulíf á Akureyri er fjölbreytt og byggir á stoðum opinberrar þjónustu og framleiðslu ýmiskonar. Þá er vegur verslunar og ferðaþjónustu að vaxa, eða var það þar til á þessu ári. Nú eru að skapast fjölmörg tækifæri til að efla atvinnulíf á Akureyri og nágrenni. Hólasandslína 3 fer að koma í gagnið og það mun auka raforkuöryggi í Eyjafirði mikið þó það verði ekki orðið fullnægjandi fyrr en Blöndulína kemst í gagnið líka. Það gefur tækifæri fyrir fyrirtæki af ýmsum stærðum og gerðum að stækka við sig eða fyrir ný að koma inn.

Stækkun flugstöðvarinnar og flughlaðs er komin af stað og mun það styrkja stöðu ferðaþjónustunnar á svæðinu þar sem ætla má að úr verði fjölgun ferðamanna með beinu flugi til Akureyrar þegar ferðaþjónustan kemst aftur á skrið. Þá má ætla að ný álma fyrir legudeild við SAk muni styrkja starf sjúkrahússins og efla með fjölgun ýmiss konar sérfræðistarfa. Þá er mikil vinna í gangi á SAk við að fá vottun sem getur aflað stofnuninni margskonar nýrra verkefna.

Háskólinn á Akureyri er einnig og getur verið enn meiri uppspretta nýrra hugmynda og tækifæra til eflingar atvinnulífs og er skemmst að minnast hugmynda um líftæknifyrirtæki sem gæti skapað 80 sérhæfð störf. Þessi upptalning er í raun dropi í hafið því ég er þess fullviss að víða eru stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja að pæla út breytingar og þróun í rekstri sem getur leitt til fjölgunar starfa í bænum. Samherji hefur á undan gengnum árum verið stór aðili í þróun atvinnulífs hér í bæ og má ætla að svo verði áfram.



Tækifærin virðast vera mörg á þessu svæði eins  og Jón Þorvaldur Heiðarsson benti á þegar hann kynnti uppfærða greiningu á eyfirska efnahagssvæðinu á haustfundi AFE í september á s.l. ári. Niðurstöður hans voru þær að á nánast öllum mælikvörðum væri ástand gott í Eyjafirði og þróunin hafi jafnframt verið góð á næstum öllum sviðum. Lítill launamunur væri milli landsvæða og það væri jákvæð þróun í ferðaþjónustunni en mikið verk óunnið.

Ástand fyrirtækja taldi hann vera gott þó erfitt væri að túlka fyrirliggjandi gögn. En eins og sést er eigið fé fyrirtækja talið vera um 400 milljarðar í Eyjafirði í heild árið 2017 á verðlagi ársins 2018. Skuldir hafa þá lækkað nokkuð en eignir aukist mikið að verðmæti. Jón Þorvaldur telur því að fjárfestingargeta fyrirtækja á svæðinu sé mikil en þau virðast að sama skapi vera frekar passív. Þess ber þó að geta að Samherji hefur fjárfest fyrir mikla fjármuni í skipum og fiskvinnslum á Akureyri og Dalvík.

Ef fyrirtækin hafa mikla getu til fjárfestinga á svæðinu má spyrja, af hverju þau eru ekki að fjárfesta í meira mæli og skapa þannig fleiri störf. Því verður ekki svarað hér frekar en í erindi Jóns Þorvaldar en kannski væri ráð að kanna það betur svo bæta megi úr því sem þarf að bæta úr til að fyrirtækin fari af stað ef það er í valdi okkar hér á svæðinu.

Hlutverk okkar bæjarfulltrúa og bæjarkerfisins er ekki að stýra eða stjórna uppbyggingu á þessu sviði. En það er nauðsynlegt að við fylgjumst vel með og bregðumst við þegar það á við. Við þurfum að sýna verkum áhuga og gæta þess vel að taka vel á móti áhugasömum einstaklingum og fyrirtækjum sem hingað leita eftir upplýsingum og aðstoð.

Þjónustulundin er lykilatriði í þessu sambandi. Við verðum að vera vakandi fyrir því að styðja við íbúa og fyrirtæki í samskiptum við ríki t.d. um ýmsar framkvæmdir sem koma öllum vel t.d. styttingu leiðarinnar á milli Höfuðborgarsvæðisins og Eyjafjarðar, sem er framkvæmd sem er öllum til hagsbóta. Þá verðum við að sjá til þess að grunnsþjónustan sé ávallt til fyrirmyndar og það fari þannig orð af henni að fólk vilji og sækist eftir því að búa í þessum fallega bæ. 

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri og vona að eitthvert gagn hafi verið af í umræðu um atvinnulíf á Akureyri. Það er einnig von mín að þessar pælingar verði hvati til að bæta enn frekar upplýsingaöflun og framsetningu þeirra um atvinnulífið í heild, það mun koma öllum hér að gagni við að byggja ákvarðanir á gögnum.


Gunnar Gíslason

bæjarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook