Opnað fyrir umsóknir í Matvælasjóð

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, opnaði á miðvikudag formlega fyrir umsóknir í nýjan Matvælasjóð. Frumvarp ráðherra um stofnun sjóðsins var samþykkt á Alþingi í apríl sl. og var alls 500 milljónum króna varið til stofnunar sjóðsins og verður þeim úthlutað á þessu ári. Hlutverk sjóðsins að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Það er stundum sagt að við þurfum að framleiða okkur út úr núverandi ástandi – að það sé lykilatriði í þeirri viðspyrnu sem nú tekur við að við sköpum meiri verðmæti. Það er hárrétt enda erum við Íslendingar matvælaþjóð. Byggjum afkomu okkar öfluga samfélags að stórum hluta á því að nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti, bæði til sjós og lands. Þessi áhersla og uppruni okkar er einmitt kjarnahlutverk Matvælasjóðs – að styrkja verðmætasköpun við framleiðslu, vinnslu og markaðssetningu matvæla um allt land. Að leggja sérstaka áherslu á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og almennar aðgerðir til að bæta samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Því er stofnun Matvælasjóðs ekki bara skref í rétt átt – heldur ein forsenda þeirrar sóknar sem fram undan er í íslenskri matvælaframleiðslu“

Áhersla er lögð á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Markmið sjóðsins er að ná til verkefna á öllum stigum, allt frá hugmyndum til markaðssetningar og hagnýtra rannsókna.

Við hvetjum fyrirtæki hér á svæðinu sérstaklega til að sækja um.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook