Njáll Trausti gefur kost á sér til endurkjörs

Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, tilkynnir í Vikublaðinu í dag að hann gefi kost á sér til endurkjörs í alþingiskosningum á næsta ári.

Í umfjöllun blaðsins segir Njáll Trausti: "Ég er ánægður með það hvernig gengið hefur að vinna að framgangi þeirra mála sem ég hef lagt áherslu á og það er af nógu að taka á næstu misserum. Það eru mjög brýn verkefni sem við stöndum frammi fyrir á næstu árum sem ég vil taka þátt í að klára íbúum Norðausturkjördæmis og allri þjóðinni til heilla."

Njáll Trausti hefur setið á Alþingi frá árinu 2016 en var áður bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 2014-2016 og varabæjarfulltrúi 2010-2014.

Njáll Trausti er varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis og hefur setið í atvinnuveganefnd, í fjárlaganefnd og sem formaður Íslandsdeildar Nató-þingsins frá 2017. Hann sat áður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í Íslandsdeild vestnorræna ráðsins og Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál.

Á þingferli sínum hefur Njáll Trausti leitt starfshóp um skosku leiðina í innanlandsfluginu og alþjóðaflugvallakerfið, verið varaformaður vísinda- og tækninefndar Nató-þingsins og setið t.d. í starfshóp um orkustefnu, Norðurslóðastefnu og framtíðarnefnd forsætisráðherra.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook