Innviðir varða þjóðaröryggi

Fyr­ir ára­mót birt­ist grein eft­ir okk­ur þar sem við rædd­um um netógn­ina og hvernig hún gref­ur und­an lýðræðisþjóðfé­lög­um, s.s. með árás­um á lyk­il­stofn­an­ir. Þar greind­um við frá því að fyr­ir ári lögðum við ásamt öðrum þing­mönn­um Sjálf­stæðis­flokks­ins fram beiðni um skýrslu frá for­sæt­is­ráðherra um innviði og þjóðarör­yggi. Skýrsl­an hef­ur nú litið dags­ins ljós og er yf­ir­grips­mik­il enda unn­in á vett­vangi allra ráðuneyta.

Í skýrsl­unni er fjallað um framþróun í netör­ygg­is­mál­um og þar kem­ur fram að litið sé svo á að „ör­yggi, viðnámsþrótt­ur og áreiðan­leiki net- og upp­lýs­inga­kerfa mik­il­vægra innviða skipti sköp­um fyr­ir efna­hags­lega og sam­fé­lags­lega starf­semi, svo og trú­verðug­leika þjón­ust­unn­ar sem um ræðir, inn­an­lands sem er­lend­is“.



Þar er líka fjallað um ný­lega lög­gjöf um ör­yggi net- og upp­lýs­inga­kerfa mik­il­vægra innviða en þar er m.a. kveðið á um netör­ygg­is­ráð sem fylg­ir stefnu stjórn­valda í net- og upp­lýs­inga­ör­ygg­is­mál­um og þar verður lagt mat á stöðu netör­ygg­is á hverj­um tíma. Þar verður um að ræða vett­vang upp­lýs­inga­miðlun­ar og sam­hæf­ing­ar. Af skýrsl­unni má grein­ar að mik­il­væg skref hafa verið stig­in á lengri leið til að tryggja netör­yggi þjóðar­inn­ar.

Á ríkið að hafa skipu­lags­vald vegna þjóðarör­ygg­is?

Í skýrslu­beiðninni óskuðum við þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins eft­ir um­fjöll­un um það hvort ís­lenska ríkið ætti með al­menn­um hætti að fara með skipu­lags­vald vegna helstu grunn­innviða lands­ins á grund­velli þjóðarör­ygg­is. Í um­fjöll­un skýrsl­unn­ar er vísað í niður­stöður átaks­hóps um úr­bæt­ur á innviðum þar sem seg­ir að ein­falda þurfi ferli vegna und­ir­bún­ings fram­kvæmda við flutn­ings­kerfi raf­orku, þar sem ein­staka þjóðhags­lega mik­il­væg­ar fram­kvæmd­ir hafi tekið lang­an tíma í stjórn­sýslumeðferð.



Í þess­um til­gangi legg­ur átaks­hóp­ur­inn til að lög­fest verði heim­ild til að taka sam­eig­in­lega skipu­lags­ákvörðun þvert á sveit­ar­fé­laga­mörk vegna fram­kvæmda í flutn­ings­kerfi raf­orku. Það verði gert þannig að lög­fest verði heim­ild til að skipa sér­staka stjórn­sýslu­nefnd, sjálf­stætt stjórn­vald, með meðal ann­ars full­trú­um þeirra sveit­ar­fé­laga sem viðkom­andi raflína mun liggja um. Nú er unnið að gerð frum­varps á grunni þess­ara til­lagna.

Þetta er mikið fagnaðarefni. Að sjálf­sögðu er áfram viður­kennt að höfuðábyrgð á fram­kvæmd skipu­lags­mála liggi al­mennt hjá sveit­ar­fé­lög­um en um leið áréttað að rík­is­valdið geti farið með al­menna stefnu­mót­un í skipu­lags­mál­um og ábyrgð eft­ir at­vik­um á skipu­lags­gerð fyr­ir lands­hluta. Vísað er til þess að í ná­granna­lönd­um okk­ar, eins og Dan­mörku og Nor­egi, hafi skipu­lags­yf­ir­völd á landsvísu sam­bæri­lega heim­ild.

Niður­stöður átaks­hóps um úr­bæt­ur á innviðum, sem vísað er til í skýrsl­unni, leiðir í ljós að þörf þykir á að sníða sér­staka málsmeðferð fyr­ir skipu­lags­ákv­arðanir um raf­orku­flutn­ings­mann­virki hér á landi. Þótt þar sé ein­göngu horft til raf­orku­flutn­ings­mann­virkja er ástæða til að ætla að til­efni sé til að hafa mögu­leika á sam­bæri­legri málsmeðferð fyr­ir ann­ars kon­ar innviðaupp­bygg­ingu sem varðar stærri sam­fé­lags­hags­muni, svo sem á sviði sam­göngu­mála og raf­orku­fram­leiðslu, líkt og þekk­ist í ná­granna­lönd­un­um.



Í loka­orðum skýrsl­unn­ar seg­ir að grunn­innviðir lands og þjóðar séu ým­ist á for­ræði einkaaðila, rík­is og sveit­ar­fé­laga. Þau sjón­ar­mið hafi komið fram að ríkið fari með skipu­lags­vald vegna grunn­innviða sem varða þjóðarör­yggi og landið í heild.

Ein­mitt það er stóra verk­efnið sem bíður okk­ar á vett­vangi stjórn­mál­anna. Við þurf­um að blása til sókn­ar til að tryggja þjóðarör­yggi og til þess þurf­um við að styrkja og byggja upp lyk­il­innviði sam­fé­lags­ins með hags­muni heild­ar­inn­ar að leiðarljósi.


Njáll Trausti Friðbertsson
alþingismaður, varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, formaður Íslandsdeildar Nató-þingsins og varaformaður vísinda- og tækninefndar Nató-þingsins

Bryndís Haraldsdóttir
alþingismaður og nefndarmaður í utanríkismálanefnd


Greinin birtist áður í Morgunblaðinu


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook