Innviðir og þjóðaröryggi

Í kjölfar óveðurs sem gekk yfir landið í desember síðastliðnum komst hugtakið „þjóðaröryggi“ í hámæli. Veðurofsinn, sem lék íbúa Norðurlands sérstaklega grátt, olli umtalsverðum truflunum á samfélagslega mikilvægum innviðum á svæðinu. Samgöngur og fjarskipti röskuðust auk þess sem umtalsvert tjón varð á flutningskerfi raforku á svæðinu sem olli víðtækum og langvarandi truflunum á afhendingu raforku víðsvegar um land. Óveðrið svipti hulunni af veikleikum sem bent hefur verið á um langa hríð að plagi innviði sem eru samfélaginu öllu gríðarlega mikilvægir.

Þegar sú röskun sem óveðrið hafði ollið varð landsmönnum ljós mátti heyra að uppbygging og viðhald þeirra innviða sem orðið höfðu fyrir skakkaföllum snérist um þjóðaröryggi. En hvaða innviðir hafa verið skilgreindir þjóðhagslega mikilvægir, hver er staða þeirra og hvað aðgreinir þá? Að mínu áliti hafa upplýsingar um þessa þætti sem snúa að þeim innviðum sem skilgreindir hafa verið sem þjóðhagslega mikilvægir ekki verið nægjanlega skýrar.



Í dag lagði ég því, ásamt átta þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, fram á Alþingi beiðni um skýrslu frá forsætisráðherra um innviði og þjóðaröryggi. Sjálfur er ég fyrsti flutningsmaður af skýrslubeiðninni en aðrir flutningsmenn hennar eru: Haraldur Benediktsson, Óli Björn Kárason, Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Bryndís Haraldsdóttir, Páll Magnússon og Brynjar Níelsson.

Markmiðið með skýrslubeiðninni er að skilgreint verði nánar hvaða innviðir landsins teljist til grunninnviða samfélagsins, samanber þjóðaröryggisstefnu, og mikilvægir út frá þjóðaröryggi landsmanna, svo sem samgönguinnviðir, raforku- og fjarskiptakerfið.



Við óskum þess að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu grunninnviða samfélagsins og mikilvægra samfélagslegra innviða sem varða þjóðaröryggi og hvernig þeir hagsmunir eru tryggðir innan íslenskrar stjórnsýslu út frá ábyrgð og málefnasviði ráðuneyta og í íslenskri löggjöf.

Í skýrslunni er óskað eftir umfjöllun um:
a.      skilgreiningu á hugtakinu „þjóðaröryggi“ út frá samfélagslegum innviðum,
b.      hvaða grunninnviðir íslensks samfélags hafa verið skilgreindir sem mikilvægir með tilliti til þjóðaröryggishagsmuna,
c.      helstu hluta samgöngukerfisins, svo sem vegi, brýr, ferjur, flugvelli, og hvort þeir hlutar eigi að vera skilgreindir með tilliti til þjóðaröryggis,
d.      helstu þætti raforkukerfisins, svo sem virkjanir, flutnings- og dreifikerfið, afhendingaröryggi raforku, varaafl og stýringu, og hvort þeir hafi verið skilgreindir út frá þjóðaröryggishagsmunum,
e.      hvort helstu fjarskiptakerfi Íslands hafi verið skilgreind með tilliti til þjóðaröryggis, svo sem jarðsímakerfið (AXE), ljósleiðarakerfið, Tetra-kerfið, farsímakerfið, gagnastrengir til útlanda, langbylgjan RÚV, FM-útvarpsútsendingar,
f.      hverjir fari með ábyrgð á samfélagslegum innviðum, svo sem flug- og vegasamgöngum, afhendingaröryggi raforku og virkni fjarskiptakerfa á landsvísu,
g.      stöðu helstu grunninnviða íslensks samfélags sem varða þjóðaröryggismál gagnvart skipulagsmálum og hvernig þeir eru tryggðir í löggjöf,
h.      hvort íslenska ríkið ætti með almennum hætti að fara með skipulagsvald vegna helstu grunninnviða landsins á grundvelli þjóðaröryggis.



Skýrslubeiðnin ásamt greinargerð


Njáll Trausti Friðbertsson
alþingismaður


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook