Frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á Akureyri

Yfirferð bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að loknum bæjarstjórnarfundi 1. september 2020

Á bæjarstjórnarfundi sem fram fór í Hofi á þriðjudag var lögð fram endurskoðuð tillaga að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 sem varðar nýtt stígakerfi innan sveitarfélagsins.  Nokkur umræða spannst um málið og bentum við á að stofnstígar lægju ekki að öllum grunnskólum bæjarins og þar af leiðandi væru þeir stígar ekki í forgangi varðandi snjómokstur, í þessari tillögu. Í verklagsreglum bæjarins um snjómokstur á stígum eru stígar við skóla í forgangi og teljum við rétt að það sé samræmi milli Aðalskipulags og verklags.

Við viljum leggja áherslu á að mikilvægt er að aðskilja gangandi og hjólandi umferð en við erum ekki hlynnt því að það sé einungis gert með því að skipta umferðinni upp með hvítri línu. Við erum hrædd um að það geti skapað falskt öryggi.
Við Sjálfstæðismenn lögðum fram eftirfarandi bókun undir þessum lið .

„Við leggjum ríka áherslu á að öryggi barna sé tryggt og að snjómokstur við skólana verði í forgangi til jafns við stofnstíga. Nú þegar umferð gangandi og hjólandi vegfarenda er að aukast þá leggjum við til að hægri umferð verði tekin upp og auglýst bæjarbúum í stað þess að skipta blönduðum stígum upp fyrir hjólandi og gangandi umferð með merkingum.“

Þá hafði Þórhallur bókað í skipulagsráði undir þessum lið, að hann telji að ekki sé æskilegt að leggja stofnstíg hjólreiða í gegnum miðbæ Akureyrar, eins og ráðgert er í Skipagötu, vegna hættu sem skapast getur fyrir gangandi vegfarendur. Frekar ætti að horfa til þess að hafa blandaða umferð líkt og í göngugötunni sem er vistgata með 10 km hámarkshraða. Æskilegra sé að á þessu svæði liggi stofnstígur samsíða Glerárgötu, aðalumferðargötunni í gegnum bæinn.

Samþykkt var að setja þessa tillögu í auglýsingu og nú vonum við að bæjarbúar kynni sér gögnin í þessu máli og komi ábendingum á framfæri svo að klára megi gott stígaskipulag fyrir Akureyri sem sátt ríki um í bænum.

Á fundinum var einnig fjallað um Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2020-2024 – atvinnumál. Umræður urðu nokkrar um atvinnumál í Akureyrarbæ. Bentum við á að samband bæjaryfirvalda og fyrirtækja þurfi að vera gott og við höfum áhyggjur af þeim störfum sem eru að hverfa úr bænum t.d. með lokun Kexsmiðjunnar og Kristjánsbakarís. Þá hafa einnig verið flutt störf suður frá KEA hótelum og Þjóðskrá. Veltum við því upp hvort verið væri að fylgjast nægjanlega vel með þessari þróun og leita skýringa á því að þessi störf eru að hverfa á brott.

Við bentum einnig á erfiða stöðu Samherja þessa dagana og hvort bæjaryfirvöld væru að fylgjast með þróun mála þar, því Samherji hefur verið leiðandi fyrirtæki í uppbyggingu atvinnutækifæra og nýsköpunar á svæðinu í mörg ár. Það var einnig bent á það hvernig bærinn tekur á móti aðilum sem vilja byggja hér upp ný fyrirtæki eða aðstöðu. Hefur okkur verið bent á að það séu ótal þröskuldar hér sem ekki fyrirfinnast á Suðvestur horninu. Hvað veldur?

Við bentum einnig á að bæjarstjórnin hefur þagað þunnu hljóði um styttingu þjóðvegar 1 til Reykjavíkur, sem er í raun stórt mál til að bæta samkeppnisstöðu framleiðslufyrirtækja á svæðinu. Það þarf að bretta upp ermar til að koma því máli á hreyfingu.
 
Við fengum ádrepu frá bæjarfulltrúanum Guðmundi Baldvin fyrir að hafa bókað gegn laxeldi í Eyjafirði en við bentum honum á að aðeins hefði verið bókað gegn sjókvía eldi og aldrei lagst gegn eldi á landi, hann færi því með rangt mál.

Eins lögðum við mikla áherslu á að hafist verði handa við uppbyggingu lífmassavers á Dysnesi eins og er búið að vera í umræðunni undanfarin ár.

Rætt var um málefni flugvallarins á Akureyri og þá uppbyggingu og vaxtarmöguleika sem skapast með stækkun flugstöðvar og flughlaðs. Margir hafa barist fyrir þessari framkvæmd og Njáll Trausti alþingismaður þar femstur í flokki. Það var því fagnaðarefni þegar fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson ákvað að setja fjármagn í þessa framkvæmd í kjölfar Covid heimsfaraldurs.

Gunnar, Eva Hrund og Þórhallur


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook