Birna Sigurbjörnsdóttir látin

Birna Sigurbjörnsdóttir, fyrrum bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, lést 6. júlí sl. 75 ára að aldri. Útför hennar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag.


Birna fæddist á Akranesi 13. september 1942. Foreldrar Birnu voru Sigurbjörn Jónsson, skipstjóri á Akranesi, f. 26. ágúst 1907, d. 2. febrúar 1987, og Margrét Berentsdóttir húsfreyja, f. 27. desember 1902, d. 2. febrúar 1956.

Birna ólst upp á Akranesi og lauk þar barnaskóla og síðan gagnfræðaprófi frá Héraðs- og gagnfræðaskólanum á Skógum í Rangárvallasýslu. Hún dvaldi um hríð í Danmörku við ýmis störf áður en hún hóf nám í hjúkrunarfræði við Hjúkrunarskóla Íslands þaðan sem hún lauk námi í mars 1964.

Birna starfaði lengst af á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, fyrst sem skurðhjúkrunarfræðingur á skurðstofunni og síðan sem deildarstjóri á slysadeild sjúkrahússins þar sem hún starfaði óslitið uns hún lét af störfum vorið 2003.

Birna var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri 1990-1994, sat í nefndum hjá Akureyrarbæ á þeim tíma af hálfu flokksins og virk í flokksstarfinu um nokkuð skeið. Birna tók mikinn þátt í félagsstörfum innan Hjúkrunarfélags Íslands og var m.a. í kjara- og samninganefnd félagsins til ársins 2001. Einnig sat hún m.a. í skólanefnd MA.



Birna giftist Svavari Eiríkssyni, skrifstofustjóra á Akureyri, 2. janúar 1965. Svavar fæddist 12. febrúar 1939 og lést 24. mars 2006. Börn Birnu og Svavars eru: Berglind, Hildigunnur, Anna Margrét og Sveinn. Barnabörnin eru ellefu talsins.


Sjálfstæðismenn á Akureyri minnast Birnu Sigurbjörnsdóttur með hlýhug og þakka fyrir störf hennar í þágu Sjálfstæðisflokksins. Fjölskyldu hennar færum við innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.


Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings



Grein eftir Birnu í kosningabaráttunni 1990 er hún var kjörin bæjarfulltrúi.



Sex efstu menn á framboðslista Sjálfstæðisflokksins 1990 með nokkrum áherslumálum. Birna er þriðja frá vinstri í röð sex frambjóðenda á myndinni. 

Hinir eru Jón Kr. Sólnes, Sigurður J. Sigurðsson, Valgerður Hrólfsdóttir, Björn Jósef Arnviðarson og Hólmsteinn Hólmsteinsson.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook