Berglind Harpa Svavarsdóttir - framboðskynning

Berglind Harpa Svavarsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður byggðaráðs Múlaþings, Egilsstöðum, gefur kost á sér í 2. - 3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi 29. maí nk.

Berglind er fædd 28. nóvember 1975 og foreldrar hennar eru Svavar R. Ólafsson og Árný I Filippusdóttir. Berglind er gift Berg Valdimar Sigurjónssyni og eiga þau saman þrjá syni og búa á Egilsstöðum.

Berglind lauk BS gráðu í Hjúkrunarfræði frá HÍ 2003 og einnig meistaragráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun innan heilbrigðisþjónustunnar frá Háskólanum á Akureyri 2017.

Berglind var bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði og sinnti formennsku í Fræðslunefnd fram að sameiningu sveitarfélaga í Múlaþingi 2020 og sinnir þar formennsku í  byggðaráði og er einnig formaður Heimastjórnar á Seyðisfirði.

Áherslumál Berglindar eru atvinnu-, samgöngu- og heilbrigðismál. Bæta þarf verulega í uppbyggingu varaflugvalla, tryggja staðsetningu Reykjavíkurflugvallar og fjölga niðurgreiddum leggjum Loftbrúar. Góðar samgöngur eru gífurlega mikilvægar og horfa verður til hraðari gangnaáætlunar um kjördæmið en nú liggur fyrir.  Heilsugæslu- og sjúkrahúsþjónustu þarf sífellt að endurskoða og efla með tilliti til tækniþróunar og aukinnar einkavæðingar.

Sækja þarf aukið fé í uppbyggingu ferðamannasegla og efla þannig ferðaþjónustuna sem er stór hluti atvinnu- og verðmætasköpunar ásamt sjávarútvegi. Ljósleiðaravæðingu þarf að ljúka í dreifbýli sem þéttbýli sem er grunnur aukinna atvinnutækifæra og fjarnáms með búsetu á landsbyggðinni. Horfa þarf til orkuöflunar, tryggja örugga dreifingu og nýta tækifæri landsbyggðarinnar í grænum fjárfestingum.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook