Bæjarstjórn bókar um mikilvægi beins flugs frá Akureyri

Rætt var um eingáttastefnu í flugmálum á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær að beiðni Njáls Trausta Friðbertssonar, bæjarfulltrúa. Að umræðunni lokinni samþykkti bæjarstjórn bókun þar sem ítrekað er mikilvægi þess að fjármagn verði sett í að markaðssetja Akureyrarflugvöll sem áfangastað fyrir beint flug.

Bókun bæjarstjórnar er eftirfarandi:

"Beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll er forsenda þess að hægt sé að byggja upp öflugt atvinnulíf á Norðurlandi, hvort sem um er að ræða ferðaþjónustu eða aðrar atvinnugreinar sem byggja á góðum tengingum við erlenda markaði.

Með öflugum stuðningi við millilandaflug um Akureyrarflugvöll sé Byggðaáætlun 2014-2017 fylgt eftir, en þar er tekið fram í 1.3. f. Bættar samgöngur: "Áfram verði stutt við áætlanir flugklasans á Norðurlandi um að tryggja beint millilandaflug til Akureyrar." Með öflugum stuðningi er einnig unnið í samræmi við Ferðamálaáætlun 2011-2020 þar sem kemur fram að það þurfi „að standa að markvissri uppbyggingu áfangastaða, öflugri vöruþróun og kynningarstarfi til að skapa tækifæri til að lengja ferðamannatímabilið um land allt, minnka árstíðasveiflu og stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið.“

Ennfremur er í Sóknaráætlun Norðurlands eystra tiltekið að koma verði á reglulegu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll - allt árið. Verkefnið hefur verið leitt af heimamönnum undanfarin ár og mikilvægt að nú fáist öflugur stuðningur frá ríkinu til þess að hægt sé að ljúka verkefninu með samningagerð við flugfélag um beint millilandaflug."


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook