Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram bókun við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2018

Fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar var samþykkt í bæjarstjórn Akureyrar í gær með 7 atkvæðum meirihlutaflokkanna og VG. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar sátu hjá í atkvæðagreiðslunni. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun við afgreiðsluna:

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn getum ekki samþykkt fyrirliggjandi tillögu að fjárhagsáætlun fyrir bæjarsjóð Akureyrar árin 2018-2021. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í vinnubrögðum við fjárhagsáætlunina má enn bæta úr.

Það er jákvætt að samráð við minnihlutann hefur aukist en mætti vera meira ef ætlunin er að ná samstöðu um áætlunina. Það sem er jákvætt og má nefna hér til viðbótar er: að A-hlutinn er rekinn með afgangi á næsta ári og næstu ár, lækkun á álagningarprósentu fasteignaskatts enda hækkar fasteignamat húsnæðis á Akureyri mikið á milli ára, útgáfa greinargerðar sem er á margan hátt upplýsandi, upplýsandi starfsáætlanir, hækkun á frístundastyrk, efling skipulagssviðs, hækkun á framlögum til menningarmála til móts við hækkun á framlagi ríkisins, fyrirhugað bílastæðahús, bygging Samgöngumiðstöðvar 2019 þegar staðsetning liggur ljós fyrir, framkvæmdir í miðbæ, uppbygging þjónustuíbúða fyrir fatlaða, framlög til bygginga á ódýrara húsnæði fyrir efnaminni íbúa og húsnæði fyrir einstaklinga sem eiga í engin hús að venda. Allt eru þetta í sjálfu sér brýn verkefni í ljósi aðstæðna. Það er einnig rétt að það komi fram að stjórnendur og starfsmenn MAk eiga hrós skilið fyrir ábyrgan rekstur þótt þeim hafi verið sniðinn afar þröngur stakkur s.l. ár. Það er því ánægjuefni ef framlög til menningarmála hækka eins og áætlanir gera ráð fyrir, en það ræðst einnig af framlögum í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Fjárhagsáætlunarferlið hefur að sumu leyti verið skýrara en áður en við gerum alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð við þriggja ára áætlunina fyrir árin 2019-2021. Það getur ekki talist ásættanlegt að fagráðin skuli ekki taka þær áætlanir fyrir áður en bæjarráð gengur frá fjárhagsáætluninni til bæjarstjórnar hverju sinni. 

Það er margt gagnrýnivert í fyrirliggjandi fjárhagsáætlun 2018-2021. Hvað framkvæmdir varðar birtist það með ljósum hætti í fyrirliggjandi áætlun að tillögur meirihlutans um fjárveitingar til einstakra verkefna undanfarin ár hafa ekki gengið eftir og hafa ábendingar okkar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins hins vegar gengið eftir og jafnvel ríflega ef eitthvað er. Má þar nefna að kostnaður við Listasafnið stefnir í 700 milljónir með búnaði en ekki 400 - 500 milljónir, kostnaður við framkvæmdir í Sundlaug Akureyrar stefnir í yfir 400 milljónir en við töldum rétt á sínum tíma að miða við þá áætlun sem lá fyrir eða 385 milljónir en ekki 285 eins og samþykkt var, framkvæmdir við lóð Naustaskóla verða ekki undir 100 milljónum eins og við bentum alltaf á en ekki 60 milljónir eins og áætlað var. Það vekur einnig athygli að í þessari áætlun er ekki gert ráð fyrir að ljúka framkvæmdum á lóðinni og í raun ekki gert ráð fyrir því næstu fjögur árin. 

Þegar horft er til reksturs bæjarsjóðs er ljóst að tekjur aukast verulega milli ára. Þá eykst freistingin til að auka kostnað einnig. Það liggur fyrir að það þarf að bæta í á ýmsum sviðum en það þarf að gera það af varkárni og það þarf alltaf að liggja skýrt fyrir hver tilgangur fjölgunar starfa eða nýrra starfa á að vera og hvaða ávinningi þau eiga að skila fyrir samfélagið. Nú stefnir í töluverða fjölgun starfa hjá Akureyrarbæ en í þessari áætlun er gert ráð fyrir 27 nýjum stöðugildum í A-hlutanum frá upphaflegri áætlun fyrir árið 2017. Um 12 þessara stöðugilda eru nú þegar komin inn á árinu 2017. Sum þessara starfa eru sögð vera tímabundin en önnur komin til að vera vegna aukningar í þjónustu t.d. í félagsþjónustu og í skólum. Sú aukning eða tilgangur og ávinningur mætti í mörgum tilvikum vera skýrari. Við gagnrýnum einnig að ekki skuli hafa verið horft til þess að stytta sumarlokun leikskóla í tvær vikur, hætt við fyrirhugaða hækkun á gjaldskrá frístundar í grunnskólum, sundlaugarkortum fyrir börn 6 - 17 ára og að gjaldskrá fyrir börn í Hólbraut Hlíðarfjalls skyldi ekki lækkuð.

Í þessari áætlun birtist ákveðið stefnuleysi meirihlutans og er ekki að sjá að horft sé til framtíðar með skipulögðum hætti. Engin 10 ára sýn er til staðar en við höfum ítrekað mikilvægi þess að gera 10 ára áætlun á hverju ári síðan við tókum sæti í bæjarstjórn. Ekki kemur fram að það standi til að lækka viðmiðunaraldurinn í leikskólana með formlegum hætti þó það standi til að taka börn inn í leikskóla næsta haust frá 16 mánaða aldri. Það skapar hættu á svipuðu glundroðaástandi í leikskólamálum á næstu árum eins og ríkti s.l. haust. Þá er lagt til í áætluninni að nútímavæða skóla Akureyrar eins og það er orðað og ætlaðar til þess verks 20 milljónir á ári næstu 3 árin, sem er í sjálfu sér mjög jákvætt. Hvergi er þó hægt að sjá hvað stendur til að gera, engin sýn og engin stefnumótun. Slík vinnubrögð eru ekki til eftirbreytni.

Við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum á undanförnum árum kallað eftir betri upplýsingum og greiningum við þessa vinnu svo byggja megi ákvarðanir á gögnum. Nú eru lagðar fram starfsáætlanir ráða og sviða þar sem koma fram markmið, magntölur og upplýsingar um þjónustu. Þá er lögð fram heildstæð greinargerð með áætluninni sem gerir alla umræðu um áætlunina markvissari og málefnalegri. Þessu ber að fagna en áfram verður að þróa þessi gögn og tæki sem upplýsingagrunn fyrir bæjarfulltrúa og íbúa Akureyrar. Við lýsum fullum vilja okkar til að koma að þeirri vinnu nú sem fyrr.


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook