Aldarafmæli Íslendings

Í dag, 9. apríl, er öld liðin frá því fyrsta tölublað Íslendings, sem síðar varð málgagn Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, kom út. Blaðið hefur alla tíð verið áberandi þáttur í starfi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri, en var stofnað áður en bæði Íhaldsflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn komu til sögunnar. Frá upphafi var þó stefnt að því að blaðið væri borgaralega sinnað þjóðmálarit og áberandi sem slíkt.

Undanfara að útgáfu Íslendings má rekja til útgáfu Dagblaðsins hér á Akureyri haustið 1914. Sigurður Einarsson, ritstjóri Dagblaðsins, tók þá afstöðu að breikka þyrfti grunn blaðsins eftir fimm mánaða útgáfu og ákvað að stofna nýtt blað og fá til liðs við sig Ingimar Eydal, kennara, sem samstarfsmann sinn, og voru þeir fyrstu ritstjórar hins nýja blaðs við stofnun 9. apríl 1915. 

Samstarf fyrstu ritstjóranna stóð til ársloka 1917, uns Ingimar ákvað að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn og standa að útgáfu Dags, sem kom út í fyrsta skipti árið eftir og var stofnað til höfuðs Íslendingi. Dagur var alla tíð málgagn Framsóknarflokksins á Akureyri og kom út með jöfnum hætti allt til ársins 1996, fyrst sem vikurit og svo oftar og loks síðasta áratuginn sem dagblað, en féll í valinn vegna rekstrarerfiðleika, rétt eins og önnur pólitísk blöð hér.

Íslendingi var ætlað að taka beinan þátt í þjóðmálaumræðu og með skarpari sýn í framsetningu frétta og auglýsinga en forverinn. Íslendingur varð strax markað sem rit hægra megin við miðju og tók afgerandi afstöðu til mála á þeim vettvangi. Útgáfa blaðsins var jafnan bundin sem vikurit og kom út jöfnum höndum. Var Íslendingur elsta vikublað utan höfuðborgarsvæðisins.

Sigurður Einarsson seldi blaðið í ársbyrjun 1920 og lét af störfum sem ritstjóri. Í gegnum breytingar á eignahaldi voru Brynjólfur Tóbíasson og Jónas Jónasson ritstjórar blaðsins. Meiri festa kom á útgáfuna á árinu 1922 og tók Gunnlaugur Tr. Jónsson við sem ritstjóri. Gunnlaugur var ritstjóri blaðsins bæði þegar Íhaldsflokkurinn var stofnaður 24. febrúar 1924 og Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 25. maí 1929. Var sagt frá stofnun beggja flokka með ítarlegum hætti í blaðinu.

Gunnlaugur var ritstjóri blaðsins í einn og hálfan áratug. Þegar hann lét af ritstjórastörfum var ákveðið að Jakob Ó. Pétursson tæki við sem ritstjóri en hann gat ekki tekið við starfinu strax sökum anna á öðrum vettvangi. Einar Ásmundsson og Konráð Vilhjálmsson ritstýrðu um stutt skeið. Er þeir hættu var ákveðið að leita til Sigurðar Einarssonar fyrsta ritstjóra blaðsins um að brúa bilið og var hann aftur ritstjóri á árinu 1937 uns Jakob gat tekið við. Jakob var einn af öflugustu ritstjórum blaðsins og lék lykilhlutverk við útgáfu þess um langt skeið.

Þegar Jakob tók sér hlé frá ritstjórn árin 1945-1949 voru Bárður Jakobsson, Karl Jónasson, Magnús Jónsson frá Mel og Eggert Jónsson ritstjórar blaðsins. Magnús frá Mel varð á löngum ferli sínum einn helsti leiðtogi sjálfstæðismanna á Norðurlandi - var alþingismaður Eyfirðinga 1953-1959 (á tímum gömlu einmenningskjördæmanna) og svo Norðurlands eystra 1959-1974. Magnús varð fjármálaráðherra (þegar Gunnar Thoroddsen hætti í stjórnmálum) 1965-1971 og varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1973-1974 (eftir að Geir Hallgrímsson varð formaður). Magnús missti heilsuna, skömmu eftir varaformannskjörið, árið 1974 og hætti afskiptum af stjórnmálum langt um aldur fram.

Jakob var þekktur fyrir skorinorð skrif og telst ritstjóratímabil hans eflaust með hápunktum í útgáfu Íslendings. Í tíð hans kom til ritstjórnarskrif undir heitinu Jón í Grófinni og voru þau áberandi og vel lesin alla tíð. Blaðið var sennilega mest áberandi í skrifum og framsetningu þjóðmálaumræðu í tíð Jakobs. Blaðið tók miklum framförum og varð nútímavæddara í tíð hans, og þar t.d. skrifað um mál frá alþjóðavettvangi auk frétta úr kjördæminu. Framsetning mynda og ritmáls tóku miklum breytingum á löngu ritstjórnarskeiði Jakobs og útgáfa þess festist í sessi.

Jakob lét af ritstjórastörfum snemma árs 1966 og tók Herbert Guðmundsson við ritstjórninni af honum. Herbert ritstýrði blaðinu á árunum 1966-1969, fram á starfstíma Íslendings-Ísafoldar. Á þessum árum hóf Halldór Blöndal, sem þá var enn í námi, að koma að útgáfu blaðsins og greinaskrifum og sinnti því um nokkuð skeið með öðrum verkefnum. Halldór varð einn af helstu forystumönnum sjálfstæðismanna í kjölfarið, hafði verið erindreki flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra á námsárum og gegnt trúnaðarstörfum í flokksstarfinu á Akureyri en varð síðar varaþingmaður 1971-1979 og síðan alþingismaður 1979-2007 og ennfremur ráðherra 1991-1999 og forseti Alþingis 1999-2005.

Á árunum 1968-1972 var útgáfa Íslendings og Ísafoldar sameinuð í ritið Íslendingur-Ísafold eftir að kjördæmisráð Sjálfstæðisflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra hafði ákveðið að hætta útgáfu í fyrra formi. Útgáfan í því formi var unnin í samstarfi við Morgunblaðið. Félagið sem gaf út blaðið hlaut nafnið Vörður landshlutafélag. Var það rekið sem landshlutablað með örlítið breiðari grunni (sagði t.d. fréttir frá Vestfjörðum og Austurlandi) og sagði t.d. að hluta erlendar fréttir með í yfirlitsformi, en helsti fókusinn á Norðurlandið. Ritstjórar þess voru fyrst Herbert Guðmundsson, svo Sæmundur Guðvinsson og loks Lárus Jónsson og Ásmundur Sveinsson. 

Hlé var gert á útgáfunni í röska tíu mánuði og að því loknu var Íslendingur endurreistur í fyrri mynd og kom fyrsta blað eftir breytingar út 11. október 1973 og hafði þá verið markað blaðinu tiltölulega traustan grunn. Það tókst undir traustri forystu Halldórs Blöndals og hófst regluleg útgáfa að nýju undir ritstjórn Halldórs. Gísli Sigurgeirsson var ráðinn auglýsingastjóri við hlið Halldórs og vann af krafti að því að breikka auglýsingagrunn blaðsins og treysta undirstöður þess og útgáfu. 

Þegar Halldór lét af ritstjórastörfum vegna anna á öðrum vettvangi árið 1974 var Sigrún Stefánsdóttir ráðin ritstjóri blaðsins, en Halldór hélt áfram virkum leiðaraskrifum, rétt eins og Jakob Pétursson áður. Hún gegndi starfinu í rúm tvö ár uns hún hélt til starfa á fréttastofu Sjónvarpsins. Þá tók Gísli Sigurgeirsson við starfi ritstjóra blaðsins. Í ritstjóratíð Sigrúnar var byrjað að prenta blaðið út að hluta í lit, þegar blaðhausinn og umgjörð hans á forsíðu varð fagurblá.

Þegar Gísli hætti sem ritstjóri árið 1980 var ekki strax ráðinn eftirmaður en fjögurra manna teymi tók saman að sér ritstjórn; Sigurður J. Sigurðsson, Gísli Jónsson, Guðmundur Heiðar Frímannsson og Björn Jósef Arnviðarson. Síðar um árið tók Kristinn G. Jóhannsson að sér ritstjórn og Guðlaug Sigurðardóttir hafði þá tekið við sem auglýsingastjóri. Guðlaug hélt utan um auglýsingamál blaðsins ásamt Kristínu Ottesen þar til yfir lauk. 

Rekstrargrundvöllur Íslendings veiktist mjög þegar komið var fram á níunda áratuginn. Grundvöllur flokksmálgagna allt í kringum landið veiktist til muna og varð ljóst að reksturinn gengi illa að óbreyttu. Á þessum tíma voru ritstjóraskipti tíð á Íslendingi. Gunnar Berg Gunnarsson tók við ritstjórn af Kristni og skömmu síðar tóku Gunnar Blöndal, Halldór Halldórsson og Guðmundur Heiðar (að nýju) við ritstjórninni. 

Sumarið 1984 tók Halldór Blöndal aftur að sér tímabundið ritstjórn meðfram þingstörfum ásamt Guðmundi Heiðari. Tómas Ingi Olrich, síðar alþingismaður 1991-2003 og menntamálaráðherra 2002-2003, varð ritstjóri blaðsins í ársbyrjun 1985. Þegar 70 ára afmæli blaðsins var fagnað með sérstöku afmælisblaði í apríl 1985 var ljóst að blaðið væri á krossgötum og óvissa væri um framtíð þess. Haustið 1985 tók Stefán Sigtryggsson við ritstjórn blaðsins og varð síðasti ritstjóri Íslendings sem vikublaðs.

Í ársbyrjun 1986 var fullreynt með útgáfu blaðsins og hlé var gert á henni. Vinna við endurskipulagningu blaðsins bar ekki árangur og ákveðið var að hætta útgáfunni í óbreyttri mynd endanlega um vorið en ákveðið að gefa blaðið þess í stað út með reglubundnum hætti fyrir kosningar til Alþingis og sveitarstjórnar og reglulega þess fyrir utan til fjáröflunar fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Svo hefur verið síðan.

Á 86 ára afmæli Íslendings, 9. apríl 2001, var opnað vefrit Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og var því að sjálfsögðu gefið heitið Íslendingur til heiðurs blaðinu. Halldór Blöndal opnaði vefritið í gleðskap í Kaupangi þann dag. Vefritið hefur síðan verið fréttamiðill flokksins hér á Akureyri og þar lögð áhersla á að auglýsa viðburði og birta greinaskrif eftir forystumenn hverju sinni. Helgi Vilberg var fyrsti ritstjóri vefritsins 2001-2007, síðan var Jóna Jónsdóttir ritstjóri á árunum 2007-2010 og hef ég undirritaður gegnt ritstjórn frá árinu 2010, eða í fimm ár.

Öll tölublöð af Íslendingi hafa verið skönnuð inn og með því saga merks rits og pólitísks starfs hér á Akureyri fyrr og nú, svo og saga bæjarins á þeim tíma, verið varðveitt. Öll blöðin eru aðgengileg á vefslóðinni timarit.is og hvet ég alla til að renna yfir öll blöðin á árunum 1915-1986 og þau blöð sem síðan hafa verið gefin út fyrir kosningar til Alþingis og sveitarstjórnar.

Hér er t.d. fyrsta blaðið frá 9. apríl 1915, afmælisblað í apríl 1940, blað síðla nóvember 1963 eftir morðið á John F. Kennedy, forseta Bandaríkjanna, minningarblað um Davíð Stefánsson, skáld frá Fagraskógi (við andlát hans í mars 1964), 
fjallað um lát Ólafs Thors 1965 og lát Bjarna Benediktssonar, eiginkonu hans og dóttursonar sumarið 1970 (í Íslendingi-Ísafold), blað í maí 1974 þegar Sjálfstæðisflokkurinn vann stórsigur og hlaut 5 menn í bæjarstjórn (en komst ekki í meirihluta) og blað í febrúar 1980 þar sem fjallað er um umdeilda stjórnarmyndun Gunnars Thoroddsens; svo fátt eitt sé nefnt.


Íslendingur á sér merka sögu, fyrr og nú, og mikilvægt að fara lauslega yfir hana og með því heiðra þá heiðursmenn sem lögðu grunninn að traustu málgagni sem stóð vörð um farsæla þjóðmálaumræðu með hugsjón og kraft að leiðarljósi. Við hugsum til allra þeirra sem lagt hafa hönd á plóginn og lögðu mikið af mörkum til heiðurs sjálfstæðisstefnunni, þeirri pólitísku stefnu sem jafnan hefur reynst heilladrýgst og best þegar á reynir.


Stefán Friðrik Stefánsson
ritstjóri Íslendings
 


Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook