Aðalfundur Málfundafélagsins Sleipnis

Aðalfundur Málfundafélagsins Sleipnis var haldinn í Kaupangi í kvöld. Stefán Friðrik Stefánsson var endurkjörinn formaður Sleipnis. Stefán Friðrik hefur setið í stjórn Sleipnis frá árinu 2006, var ritari félagsins 2006-2008, varaformaður 2010-2011 og formaður frá 2011. Stefán Friðrik hefur verið ritstjóri Íslendings frá árinu 2010 og var formaður Varðar, f.u.s. 2003-2006.

Auk Stefáns Friðriks voru kjörnir í aðalstjórn: Edvard van der Linden, Jón Orri Guðjónsson, Jón Oddgeir Guðmundsson og Ragnar Ásmundsson. Í varastjórn voru kjörnir: Baldvin Jónsson, Davíð Þ. Kristjánsson og Karl Ágúst Gunnlaugsson.

Í fundarlok flutti Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi, ræðu og fór þar yfir stöðu bæjarmálanna, og voru umræður í kjölfarið.

 

Nýkjörinni stjórn Sleipnis er óskað til hamingju með kjörið og góðs gengis í félagsstörfum á næsta starfsári.

--------

Skýrsla formanns Sleipnis, fh stjórnar, á aðalfundi

 
Fundarstjóri – ágætu fundarmenn
 
Síðasti aðalfundur Sleipnis var haldinn 11. febrúar 2016. Þá voru kjörnir í stjórn auk mín: Ragnar Ásmundsson, varaformaður, Edvard van der Linden, Ingvar Leví Gunnarsson og Jón Oddgeir Guðmundsson. Í varastjórn voru kjörnir Jón Orri Guðjónsson, Baldvin Jónsson og Davíð Þ. Kristjánsson. Ég þakka þeim öllum gott samstarf á starfsárinu.
 
Stjórn félagsins hefur fundað fimmtán sinnum á starfsárinu og haldið tíu fundi í sínu nafni á tímabilinu.
 
Aðalfundur fulltrúaráðs var haldinn 22. febrúar og var Harpa Halldórsdóttir kjörin formaður.
 
Fyrsti fundur starfsársins var 27. febrúar. Þá var rætt um stjórnarskrármál og var Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður og einn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnarskrárnefnd, gestur fundarins.
 
12. mars var haldinn fundur um skipulagsmál. Gestir fundarins voru Bjarki Jóhannesson, skipulagsstjóri, og Tryggvi Már Ingvarsson, formaður skipulagsráðs. Farið var víða yfir þau mál sem helst eru í umræðunni hjá skipulagsdeild bæjarins. 
 
23. mars var Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og þáverandi innanríkisráðherra, gestur á fundi á Icelandair Hotel og rædd staðan í pólitíkinni og málefni innanríkisráðuneytisins á þeim tíma, einkum samgöngu og sveitarstjórnarmál.
 
29. mars var haldinn fundur um málefni ferðaþjónustunnar. Gestir á fundinum voru Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi ráðherra ferðamála og iðnaðar, og Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður.
 
Aðalfundur kjördæmisráðs var haldinn í Sveinbjarnargerði 9. og 10. apríl. Á þeim tíma var umræðan um Panamaskjölin í hámarki - Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði sagt af sér sem forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson tekið við. Ákveðið hafði verið að flýta alþingiskosningum um nokkra mánuði, til hausts 2016. 
 
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins, voru gestir á fundinum og ræddu hina eldfimu stöðu þá í pólitíkinni. Kristinn Árnason var endurkjörinn formaður kjördæmisráðsins og formaður Sleipnis áfram ritari í stjórn ráðsins.
 
16. apríl var haldinn fundur með Ásmundi Friðrikssyni alþingismanni flokksins í Suðurkjördæmi. Einkum voru rædd málefni á verksviði atvinnuveganefndar og velferðarnefndar sem Ásmundur sat þá í. 
 
Vöfflukaffi var haldið á sumardaginn fyrsta á vegum fulltrúaráðsins venju samkvæmt.
 
14. maí var haldinn fundur með Kristjáni Þór Júlíussyni, þáverandi heilbrigðisráðherra, og rædd staðan í pólitíkinni, en þá hafði verið boðað aukakjördæmisþing til að ákveða aðferð við val á framboðslista og kosningar færu fram til Alþingis í október. Rætt var einkum um stöðuna með hliðsjón af því.
 
Aukakjördæmisþingið var svo haldið í Skjólbrekku í Mývatnssveit 21. maí og ákveðið þar að halda röðun á kjördæmisþingi 3. og 4. september við val á efstu sex sætum framboðslista og samþykkja þar framboðslistann í heild. Almenn samstaða var um þá ákvörðun.
 
4. júní var haldinn fundur með Valgerði Gunnarsdóttur, alþingismanni. Þar voru rædd staðan í þinginu og í pólitíkinni almennt. Þinghald stóð þá enn og stóð fram eftir mánuði, þangað til þingið hætti störfum vegna forsetakjörs.
 
Að loknu sumarleyfi, þann 18. ágúst, var haldinn sameiginlegur aukaaðalfundur fulltrúaráðs og sjálfstæðisfélaganna allra til að undirbúa kjördæmisþing og fylla í laus sæti varamanna í kjördæmisráði.
 
Röðun var svo haldin á kjördæmisþingi í Mývatnssveit 3. september. Þar hlutu kjör í efstu sætin, í eftirfarandi röð; Kristján Þór Júlíusson, Njáll Trausti Friðbertsson, Valgerður Gunnarsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Elvar Jónsson og Melkorka Ýrr Yrsudóttir. Var þetta aðeins í annað skipti sem röðun var haldin á vegum flokksins og tókst hún mjög vel og vorum við í kjörnefnd vel undirbúin til verksins og framkvæmdin gekk upp eins og skipulagt var og gott betur en það. Á seinni degi þingsins var svo samþykktur í heild framboðslisti fyrir alþingiskosningar.
 
17. september má segja að kosningabaráttu flokksins í kjördæminu hafi verið startað með umræðufundi á vegum okkar í Sleipni um kosningamálin og stöðuna í kjördæminu. Þar höfðu framsögu Kristján Þór Júlíusson og Njáll Trausti Friðbertsson, efstu menn á framboðslistanum við alþingiskosningarnar 29. október.
 
Kosningabaráttan var stutt og snörp eins og segja má og stóð að meginþunga allan októbermánuð. 7. október var opnuð kosningaskrifstofa flokksins í Strandgötu 3, sama stað og við höfðum aðstöðu í sveitarstjórnarkosningum 2014. 
 
Vinnan á skrifstofunni hófst með fundi okkar í Sleipni morguninn eftir opnun, laugardagsmorguninn 8. október. Þar var gestur okkar Halldór Blöndal, fyrrum ráðherra, alþingismaður og þingforseti, og rætt um kosningamálin og málefni eldri borgara, en Halldór er eins og flestir vita formaður Sambands eldri sjálfstæðismanna - SES. 
 
Í upphafi fundar tókst mér að koma Halldóri skemmtilega á óvart, en þá tilkynnti ég um þá ákvörðun stjórnar á stjórnarfundi 6. október að gera Halldór Blöndal að heiðursfélaga í Sleipni eftir áratugastörf sín í pólitíkinni og hafa unnið ötullega að framgangi Málfundafélagsins Sleipnis. Færðum við í stjórninni Halldóri heiðursskjal í ramma og rauðvínsflösku að auki í gjöf frá okkur.
 
Mánudaginn fyrir alþingiskosningar, 24. október, var svo haldinn hádegisfundur á kosningaskrifstofunni með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og fluttu efstu menn hér þar ræður ennfremur. Þar komu vel á annað hundrað manns - skrifstofan sneisafull og boðið upp á góða kjötsúpu. Þetta gaf góð fyrirheit um úrslitin.
 
Á kosningaskrifstofunni í Strandgötu 3 var opið alla daga fram að kjördegi og var gaman að vera þar staddur flesta daga á þessum þremur vikum kosningabaráttunnar og hitta fólk. Við sóttum á sífellt á alla baráttuna og tryggðum að lokum glæsilegan sigur á landsvísu. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 21 þingmann og 30% fylgi. Hér í Norðausturkjördæmi náðum við okkar markmiðum – hlutum þrjá menn kjörna og stóðum nærri fjórða manni og oddviti flokksins varð 1. þingmaður kjördæmisins. 
 
Stjórnarmyndunarviðræður tóku langan tíma og hnúturinn illleyanlegur – þurfti nokkrar atrennur til að ná góðri niðurstöðu. Stjórnarkreppan varði í rúma 70 daga, svipaðan tíma og að loknum alþingiskosningum 1987. Að lokum var mynduð þriggja flokka hægristjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar. Oddviti flokksins í kjördæminu, Kristján Þór Júlíusson, varð áfram ráðherra en tók nú við menntamálunum eftir tæp fjögur ár með heilbrigðismálin. Ný stjórn fer vel af stað og allar forsendur fyrir hendi svo búast megi við góðum verkum þó áskorunin sé allmikil með naumasta þingmeirihluta. Samstarf og samvinna hlýtur því að vera mikilvæg á vettvangi þingsins nú.
 
Þegar ný ríkisstjórn hafði loks verið mynduð héldum við í Sleipni fund með þingmönnum okkar 14. janúar. Ekki hafði þá verið haldinn opinn fundur um landsmálin frá kosningum og því um nóg að ræða um verkefnin framundan og almenn bjartsýni með stjórnarsamstarfið og sáttmálann sem er ramminn utan um þau verk sem stefnt er að.
 
Bæjarmálafundir hafa verið haldnir reglulega á starfsárinu, tveir fundir í mánuði að jafnaði og tíðari fundir þegar unnið var að fjárhagsáætlun. Kosið verður til sveitarstjórna 26. maí 2018 og því blasir við kosningaundirbúningur, taka ákvörðun um framboðsaðferð og önnur brýn mál. Mikilvægt er að hefja þá vinnu tímanlega og vera vel undirbúin. Þá verða átta ár liðin frá því við réðum síðast för í bæjarmálunum og tímabært að vinna vel og ötullega að því að tryggja Sjálfstæðisflokknum lykilstöðu á næsta kjörtímabili.
 
Við hjá Málfundafélaginu Sleipni munum halda okkar striki, halda góða og öfluga málfundi hér eftir sem hingað til - svo félagsstarfið verði blómlegt og skapi forsendur fyrir góðum kosningasigri. Við verðum að vinna öll tvíefld að því að okkar áherslur ráði för við stjórn bæjarins - tryggja kraft í stað kyrrstöðu eins og fyrir 20 árum þegar við komumst til valda í bænum eftir vonda vinstristjórn.
 
Stefán Friðrik Stefánsson 
formaður Málfundafélagsins Sleipnis 

Svæði

Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri  |  Geislagötu 5   |   Ritstjóri Íslendings: Stefán Friðrik Stefánsson  |  XD-AK á facebook  |  XD-NA á facebook